RÚV birtir þessa mynd af þingmönnum sem misstu sæti sín í kosningunum. Það verður að segjast eins og er, eftirsjá er eftir mörgu af þessu fólki og ekki einboðið að betra fólk fylli í skörðin.
Þarna eru Teitur Björn Einarsson, Valgerður Gunnarsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Hildur Sverrisdóttir úr Sjálfstæðisflokki.
Eva Pandóra Baldursdóttir, Einar Brynjólfsson og Gunnar Hrafn Jónsson úr Pírötum.
Benedikt Jóhannesson, Jóna Sólveig Elínardóttir og Pawel Bartoszek úr Viðreisn.
Óttarr Proppé, Nichole Leigh Mosty og Björt Ólafsdóttir úr Bjartri framtíð.
Það verður að segjast eins og er að yfirbragð þingsins breytist talsvert með brotthvarfi þessara þingmanna og innkomu þingmanna úr Miðflokknum og Flokki fólksins. Einhverjir myndu kannski orða það svo að talsmönnum frjálslyndis hafi fækkað.
Úr kosningaúrslitunum má lesa hversu mikið misvægi milli atkvæða er í kosningakerfinu okkar. ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, hefur gert athugasemdir við þetta í fyrri kosningum. Samkvæmt kosningalögum má misvægið ekki vera meira en 2 á móti 1, þá byrja þingsæti að færast til. Vægi atkvæða er mest í Norðvesturkjördæmi, fámennsta kjördæminu, minnst í Kraganum, fjölmennasta kjördæminu.
Misvægið hefur verið tengt byggðapólitík, semsagt því að réttlætanlegt sé að þeir sem búi á stöðum sem hafa á einhvern hátt skert aðgengi að þjónustu hafi meira atkvæðavægi en hinir. Í raun er þetta frekar langsótt, hví ætti íbúi á Akranesi að hafa stærra atkvæði en íbúi í Mosfellsbæ?