Í dag er aðalmálið að sem flestir noti atkvæði sitt. Það er unga fólkið sem mætir síst á kjörstað.
Við eigum að hafa samband við ungt fólk sem við þekkjum, hringja eða senda skilaboð. Jafnvel bjóðast til að aka því á kjörstað.
Getur líka verið tækifæri til að tala við ungt fólk sem við eigum kannski ekki alltof mikil samskipti við – börn, barnabörn, frændur, frænkur, vini og vinkonur. Hitta það í kaffi eða snarl.
Þetta er lykilatriði í því að kosningar fari almennilega fram og sýni vilja þjóðar. Við sem erum farin að reskjast eigum ekki að ákveða fyrir ungt fólk sem á eftir að lifa í þessu samfélagi í marga áratugi eftir að við erum á bak og burt.
Kappræður eins og voru í sjónvarpinu í gærkvöldi auka kannski ekki áhuga ungs fólks á að kjósa. En við verðum samt að gera allt sem við getum til að drífa það á kjörstað.