Lögbann á fjölmiðil er aðgerð sem yfirleitt virkar öfugt. Eitt og sér gefur það til kynna að eitthvað búi á baki sem ástæða er til að fela. Og skilningur gagnvart banni á birtingu upplýsinga úr gömlu, föllnu og illa þokkuðu bönkunum er afar lítill. Þeir eru á svarta listanum hjá þjóðinni.
Reynslan sýnir líka að það þýðir lítið að vísa í bankaleynd þegar upplýsingarnar eru búnar að leka út.
Og það verður að segja að lögbannið gerir vart annað en að styrkja Stundina sem undanfarið hefur verið nokkuð ein á báti með birtingu frétta úr gamla Glitni – einkum upplýsinga sem tengjast Bjarna Benediktssyni. Aðrir fjölmiðlar hafa ekki tekið upp nema hluta af þessum fréttum.
En nú er þetta á allra vitorði. Fréttir Stundarinnar fara eins og eldur í sinu um alnetið. Blaðið er í samstarfi við Guardian um birtingu þessa efnis, en lögbann hefur enn ekki verið sett á breska blaðið.
Það eru innan við tvær vikur til kosninga. Lögbannið mun örugglega ekki gera stöðu Bjarna Benediktssonar auðveldari. Það er langstærsta fréttin nú i aðdraganda kosninganna.
Ýmiss konar kvittur getur komist á kreik – eins og að einhvers staðar þarna sé að finna upplýsingar sem eru verri en múlbindingin. Sem þarf alls ekki að vera.
Mynd sem DV birti með frétt af lögbanninu á Stundina.