George HW. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, varð um helgina langlífasti fyrrverandi forsetinn í sögu Bandaríkjanna.
Á laugardag varð hann 93 ára og 166 daga gamall. Fyrra metið, ef svo má segja, átti Gerald Ford en hann lést 93 ára og 165 daga gamall árið 2006.
Að því er fram kemur á fréttavef Time var það menntaskólanemandi í Bandaríkjunum sem greindi fyrst frá þessari forvitnilegu staðreynd. Í færslu nemandans, Gabe Fleisher, kemur fram að Jimmy Carter sé þriðji á þessum lista en hann er nokkrum mánuðum yngri en Bush. Báðir eru þeir á 94. aldursári.
George Bush eldri var forseti Bandaríkjanna á árunum 1989 til 1993 en Carter var forseti árin 1977 til 1981.