Fyrrum besti knattspyrnumaður heims, George Weah, verður nýr forseti Líberíu. Hann hlaut meirihluta atkvæða í 13 af 15 sýslum og sigraði þar með hinn 73 ára Joseph Boakai, varaforseta landsins til 12 ára. Weah verður 25. forseti Líberíu og tekur við af Ellen Johnson – Sirleaf, sem var fyrsta afríska konan til að gegna embætti þjóðhöfðingja.
Lýðveldið Líbería er á vesturströnd Afríku og var fyrst ríkja Afríku til að lýsa yfir sjálfstæði, 1847 . Weah, sem er fæddur árið 1966, var kosinn besti knattspyrnumaður heims árið 1995 af FIFA, en hann spilaði til dæmis með Monaco, Paris Saint German, AC Milan, Chelsea og Manchester City á knattspyrnuferli sínum. Hann bauð sig fyrst fram í forsetakosningunum árið 2005, en tapaði þar fyrir Ellen Johnson-Sirleaf.
Weah þakkaði stuðningsmönnum sínum og kjósendum á Twitter í dag.