Það getur stundum komið blaðamönnum í koll við fréttaskrif að búa til krassandi fyrirsagnir sem máske hljóma vel, en eru ekki endilega sannleikanum samkvæmar. Hið sama gildir um tilhneigingu sumra, að gera ráð fyrir einhverri útkomu, sama hversu rökrétt sú ákvörðun virðist á þeim tíma. Þess vegna hefur það löngum verið talin reglan að blaða- og fréttamenn eigi að skilja persónulegar skoðanir sínar utan við fréttirnar.
Hitler dregur sig í hlé
Fréttaritari The New York Times í Berlín hefur mögulega séð eftir frétt sinni um lausn Hitlers úr fangelsi árið 1924, þó eftirsjáin hafi mögulega ekki komið fyrr en nokkrum árum síðar. Úrklippa með fréttinni hefur nú þotið um iður internetsins, en í niðurlagi hennar spáir blaðamaðurinn allt annarri útkomu en raunin varð, enda hefur mannkyn vart verið samt síðan.
Í fréttinni, sem ber fyrirsögnina „Hitler taminn í fangelsinu“, segir að Hitler hafi verið látinn laus úr fangelsi, á skilorði. Í lokin er svo sagt: „Talið er að hann muni draga sig í hlé og snúa til Austurríkis, fæðingarstaðar hans.“
Svo fór nú aldeilis ekki. Hitler gaf út Mein Kampf árið eftir, en hann samdi hana að hluta til í fangelsinu og framhaldið þekkja allir.
Hér er bein þýðing á fréttinni:
Hitler taminn í fangelsinu
Sleppt á skilorði, Búist við að hann snúi til Austurríkis
Berlín, 20. desember- Adolf Hitler, eitt sinn hálfguð afturhaldssamra öfgamanna, var sleppt úr fangelsi gegn skilorði úr Landsbergvirkinu í Bæjaralandi í dag og hélt samstundis til München í bifreið. Hann virtist mun sorgmæddari og vitrari maður í dag en síðasta sumar, þegar hann, ásamt Ludendorff og öðrum róttækum öfgamönnum, kom fyrir rétt í München , hvar hann var ákærður fyrir valdaránstilraun. Hegðun hans í fangelsinu sannfærði stjórnvöld um, að hann beri ekki lengur að óttast og að hið sama gildi um hin pólitísku samtök hans, Völkischer. Búist er við að hann muni draga sig í hlé og snúa aftur til Austurríkis, fæðingarstaðar hans.