Fráfarandi samgönguráðherra, Jón Gunnarsson, telur það skref aftur á bak að falla frá fjármögnun vegaframkvæmda með vegatollum, líkt og eftirmaður hans, Sigurður Ingi Jóhannsson ætlar sér að gera. Þetta kemur fram á RÚV.
Líkt og fram kom í gær hefur Sigurður Ingi slegið allar hugmyndir um vegtolla út af borðinu. Segist Jón hissa á eftirmanni sínum vegna þessa.
„Meðan ekki koma fram aðrar hugmyndir samhliða því að slá af umræðu um svona hugmynd þá finnst mér vera farið aftur á bak. Og ég verð að segja að ég er svolítið hissa á nýjum samgönguráðherra. Það væri hægt á næsta ári að taka Grindavíkurveginn og klára hann, taka veginn til Þorlákshafnar sem þarf að laga, veginn uppi á Kjalarnesi, Reykjanesbrautina. Það væri hægt að hefja framkvæmdir á öllum þessum stöðum og nánast tvöfalda framlög til nýframkvæmda í samgöngum á mjög skömmum tíma.“