Boðað hefur verið til stofnfundar nýs bæjarmálafélags í Vestmannaeyjum á fimmtudaginn. Er markmiðið sagt vera að „bæta samfélagið,“ Vestmannaeyjar séu góður staður til að búa á en alltaf sé hægt að „gera betur.“
Einn skipuleggjanda stofnfundarins, Leó Snær Sveinsson, segir við Morgunblaðið að „þung undiralda“ sé í Vestmannaeyjum. Framboðið hefur átt sér nokkurn aðdraganda, líkt og rakið hefur verið á Eyjunni. Mikil óánægja kviknaði meðal Sjálfstæðismanna í Eyjum þegar ákveðið var af fulltrúaráði flokksins að hverfa frá prófkjöri til að raða á lista fyrir komandi sveitastjórnarkosningar, en prófkjörstillagan var felld með 28 atkvæðum gegn 26. Ekki hefur verið haldið prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Eyjum í 28 ár. Þá telja sumir að valdatími Elliða Vignissonar bæjarstjóra sé kominn fram yfir síðasta söludag sem hefur setið í 12 ár á valdastóli.
Íris Róbertsdóttir hefur verið nefnd sem mögulegur oddviti nýs framboðs, en hún er fyrrum varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hún segist í samtali við Morgunblaðið í dag ekki vera forsvarsmaður framboðsins:
„Nei, það er ég ekki, en hef hins vegar hugsað mér að mæta á þennan fund.“
Þá er haft eftir Leó Snæ að framboðið standi hvorki né falli með því hvort Íris verði oddviti:
„„Íris er stór vinkill í þessu en hún er ekki sú eina. Þetta snýst um meira en það.“