Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segist ætla að stíga varlega til jarðar þegar kemur að því að aflétta banni við áfengis-og tóbaksauglýsingum á Íslandi. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Er þetta þvert á ályktun fjölmiðlanefndarinnar, nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, sem í janúar lagði til að RÚV yrði tekið af auglýsingamarkaði og lagði einnig til að birtingar á áfengis- og tóbaksauglýsingum yrðu heimilaðar, „innan þess ramma sem alþjóðlegar skuldbindingar Íslands segja til um.“
Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að auglýsingabannið á Íslandi væri hætt að „þjóna tilgangi sínum“ þar sem slíkar auglýsingar komi daglega fyrir augu íslendinga í gegnum netið, á samfélagsmiðlum og í gegnum erlend blöð og tímarit.
Lilja vill að lýðheilsusjónarmið ráði för:
„Það skiptir mestu máli að mínu mati. Nefndin skilaði niðurstöðu til mín í febrúar og hef ég þegar sett af stað vinnu þar sem við erum að fara yfir tillögurnar. Þetta er ein af tillögunum sem við erum að fara yfir, hvað þetta þýði fyrir fjölmiðla, hvernig önnur ríki hafa verið að nálgast áfengisauglýsingar og hvað þetta þýði með tilliti til aukinnar neyslu og aðgengis. Okkur hefur tekist mjög vel til hvað þetta varðar hingað til. Þess vegna þurfum við að stíga mjög varlega til jarðar og það þurfa að vera mjög góð rök fyrir því að við gerum breytingar. Við erum að skoða þetta en það verður fyrst og síðast lýðheilsustefna sem ræður för um hvaða stefna verður tekin,“
sagði Lilja.