Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri og dagskrárstjóri Hringbrautar, er ekki bjartsýnn fyrir hönd fjölmiðla í pistli sínum í dag er nefnist „Pólitísk sátt um aðgerðarleysi“. Hann segir alla stjórnmálaflokka styðja aðstöðumun fjölmiðla, af mismunandi forsendum og þeim muni fækka á komandi misserum:
„Frjálsum og einkareknum fjölmiðlum mun fækka á komandi misserum. Þróttmikil umræða og aðhaldsrík fréttamennska mun víkja fyrir einsleitni og fábreytni á þessu mikilvæga sviði samfélagsins. Ástæðan er ofureinföld. Á Íslandi ríkir pólitísk sátt um aðstöðumun á fjölmiðlamarkaði, svo mikinn raunar að ef hann gilti á öðrum lendum atvinnulífsins væru opinberar eftrlitsstofnanir þegar búnar að taka þar til.
Ríkisútvarpið fær ekki einasta milljarða meðgjöf ríkissjóðs, jafnt á fjárlögum sem aukafjárlögum og til þrautavara bakfærðar leiðréttingar, heldur fer það fram á auglýsinga-, kostunar- og kynningarmarkaði af slíku offorsi að einkareknir fjölmiðlar hafa þar ekki bolmagn til að keppa við sterkustu markaðsdeild í faginu sem veifar náttúrlega hæstu áhorfstölunum framan í kúnnann – og eykur aðstöðumuninn enn meira.
Þetta styðja allir stjórnmálaflokkar, Vinstri græn í nafni forsjárinnar, Framsókn í nafni sögunnar, Samfylkingin í nafni kúltúrsins, Miðflokkurinn í nafni þjóðarinnar, Flokkur fólksins í nafni almennings, Píratar í nafni upplýsingar, Viðreisn í nafni frjálsræðis og Sjálfstæðisflokkurinn í nafni staðreynda; hann hefur langoftast haft völdin í ráðuneyti fjölmiðla síðustu áratugi og sýnt þar einbeitt og óumdeilt aðgerðarleysi í verki.“