Kven Glover, yfirmaður rannsókna Hafrannsóknarstofnunar Noregs og prófessor við Bergenháskóla, segir í viðtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv þann 18. mars, að samkvæmt niðurstöðum rannsókna sinna sé innblöndum í laxeldi ekki eins skaðleg og áður var haldið.
Frá þessu er greint á vef Bæjarins besta, bb.is.
Glover segir að þó svo að um sé að ræða innblöndun eldislaxa í veiðiám með villtum laxastofnum upp á 5 til 10 prósent sjáist nær engar breytingar á 50 til 100 árum, í stærð smárra og fullorðinna laxa, né hve mikinn fisk áin framleiðir, né heldur breytingar á endurheimtum laxa eftir sjógöngu.
„Niðurstaðan bendir til að við búumst ekki endilega við að sjá miklar afleiðingar af hlutfallslega lítilli innblöndun við eldislaxa á hrygningarstöðvum“,
segir Glover.
Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknarstofnunar vegna fiskeldis hér á landi, hefur verið miðað við að innblöndun megi ekki fara yfir 4 prósent, en niðurstöður Glover benda til að villtir laxastofnar bíði ekki tjóns þó svo hlutfallið sé allt að 10 prósentum.
Hafrannsóknarstofnun hefur á grundvelli áhættumatsins mælt með að laxeldi sé ekki stundað í Ísafjarðardjúpi og verði 30 þúsund tonnum minna á Austfjörðum heldur en burðarþolsmat segir til um, þar sem innblöndun sé 7 prósent í Laugardalsá og Langdalsá/Hvannadalsá og um 8 prósent í Breiðdalsá fyrir austan.
Ljóst er að niðurstöður Glover eru á skjön við áhættumatið og því spurning hvort því verði breytt í samræmi við það.
Hafrannsóknarstofnun vitnaði í eldri niðurstöður Glover við áhættumat sitt síðasta sumar og Erfðanefnd landbúnaðarins, sem hefur verið gagnrýnin á laxeldi, bauð honum á fund fyrr á þessu ári, hvar hann var aðalræðumaður, að því er fram kemur á vef bb.is