Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, hefur verið einn ötulasti talsmaður þess að Sjálfstæðisflokkurinn geri upp hrunið, með því að líta í eigin barm. Þetta er eitt helsta umfjöllunarefnið í bók hans „Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar-Byltingin sem aldrei varð“ er kom út á síðasta ári.
Í færslu á heimasíðu sinni í dag, sem ber yfirskriftina „Það sem ekki var rætt á landsfundi“, segir Styrmir að Sjálfstæðisflokkurinn telji ekkert ósagt um hrunið, sem kosti flokkinn fylgi:
„Að loknum landsfundi Sjálfstæðisflokksins nú um helgina er tvennt ljóst: Sjálfstæðisflokkurinn telur sig ekki eiga neitt ósagt við íslenzku þjóðina um ástæður hrunsins – nú þegar 10 ár verða liðin í haust frá þeim ósköpum. Sjálfstæðisflokkurinn telur enga ástæðu til að ræða í eigin ranni þá staðreynd að flokkurinn hefur tapað a.m.k. 10 prósentustigum af fylgi sínu ef ekki meiru.
Þetta er bersýnilega meðvituð ákvörðun forystusveitar nýrrar kynslóðar í flokknum. Um hana má segja að hver er sinnar gæfusmiður. Afleiðingarnar blasa hins vegar við. Verulega minnkandi áhrif flokksins á framvindu landsmála.“
Uppgjörsmálið virðist Styrmi ansi hugleikið. Hinsvegar eru litlar líkur á að honum verði að ósk sinni, tíu árum eftir atburðinn, þar sem fáir aðrir, ef einhverjir, innan flokksins hafa vakið máls á þessu undanfarið og forysta flokksins virðist frekar vilja horfa fram á veginn, heldur en að líta um öxl.