Elísabet Brynjarsdóttir var í kvöld kjörin nýr formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) með öllum greiddum atkvæðum. Kosningin fór fram á skiptafundi ráðsins.
Elísabet útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands í júní síðastliðnum og hefur starfað sem teymisstjóri hjá heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins síðastliðið ár. Elísabet er formaður Hugrúnar – geðfræðslufélags háskólanema, sem stofnað var árið 2016 af nemendum í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði við Háskóla Íslands og hefur gegnt hlutverki oddvita Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, samhliða því. Röskva vann meirihluta í kosningum til Stúdentaráðs í febrúar síðastliðnum.
Elísabet hefur setið í SHÍ síðastliðin tvö starfsár og lætur nú af störfum sem formaður sviðsráðs Heilbrigðisvísindasviðs, sem er eitt af fimm sviðsráðum fræðasviðanna Háskólans sem saman mynda SHÍ.
Elísabet segist spennt að takast á við þau stóru verkefni framundan í hagsmunabaráttu stúdenta og nefnir sérstaklega húsnæðismál stúdenta, nýtt lánasjóðsfrumvarp og bætta geðheilbrigðisþjónustu við nemendur Háskóla Íslands.
Á skiptafundi voru einnig kjörnir eftirfarandi fulltrúar á Réttindaskrifstofu SHÍ:
Varaformaður: Sonja Sigríður Jónsdóttir
Hagsmunafulltrúi: Pétur Geir Steinsson
Lánasjóðsfulltrúi: Elísa Björg Grímsdóttir.