fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Framsýn krefst launahækkana

Trausti Salvar Kristjánsson
Föstudaginn 16. mars 2018 10:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalsteinn Á. Baldursson       Mynd-Framsýn

Framsýn, stéttarfélag hefur ritað stjórn Landsvirkjunar bréf með áherslu á hækkun launa til starfsmanna á gólfinu.  Laun forstjóra Landsvirkjunar hækkuðu um 45% á síðasta ári og hjá framkvæmdarstjórum og aðstoðarforstjóra um 24 prósent.

„Það er von Framsýnar, stéttarfélags að sá velvilji stjórnar Landsvirkjunar til að hækka eigin laun og laun lykilstjórnenda fyrirtækisins verði til þess hún bregðist vel við beiðni stéttarfélagsins um að almennir starfsmenn innan Landsvirkjunar fái einnig notið hluta þess mikla hagnaðar sem fyrirtækið skilaði á síðasta ári, ekki bara stjórnendur,“ segir í tilkynningu.

Sjá bréfið til Landsvirkjunar:

 

Landsvirkjun

Hr. Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður

Háaleitisbraut 68

103  Reykjavík

 

Húsavík 12. mars 2018

 Beiðni um endurskoðun á kjörum starfsmanna

Fram hefur komið í fjölmiðlum að staða Landsvirkunnar sé með miklum ágætum og fyrirtækið hafi hagnast um  11,2 millj­arða króna á síðasta ári, en það er tölu­vert meiri hagnaður en árið áður þegar hann nam 6,7 millj­örðum króna. Selt magn nam 14,3 tera­vatt­stund­um, sem er yfir 5% aukn­ing frá fyrra ári.

Í til­kynn­ingu um árs­upp­gjörið er haft eft­ir Herði Arn­ar­syni for­stjóra að rekst­ur­  hafi gengið vel á ár­inu 2017. Tekj­ur hafi verið meiri en nokkru sinni fyrr og sleg­in hafi verið öll met í orku­sölu- og vinnslu. Þá hafi ytri aðstæður verið hag­stæðar þar sem ál­verð hafi hækkað um 23% á milli ára.

Að sjálfsögðu ber að fagna þessu að mati Framsýnar, stéttarfélags. Það verður hins vegar ekki gert með því að færa lykilstjórnendum fyrirtækisins fáheyrðar launahækkanir meðan aðrir starfsmenn fyrirtækisins, það er starfsmennirnir á gólfinu, sitja eftir á strípuðum töxtum samkvæmt kaupskrá Starfsgreinasambands Íslands og Landsvirkjunar.

Svo vitnað sé áfram í fjölmiðla þá hækkuðu laun for­stjóra Lands­virkj­unar um 700 þús­und krónur á mán­uði á árs­grund­velli og eru nú 2,7 millj­ónir króna. Laun stjórn­ar­manna í Landsvirkjun hækk­uðu um tæp 50 pró­sent. Sam­an­lagt deildu fimm stjórn­ar­menn með sér 525 þús­und krónum til við­bótar á mán­uði. Þetta var ákveðið af starfs­kjara­nefnd Landsvirkjun­ar, sem í sitja þrí­r ­stjórn­ar­mann­anna.

Með bréfi þessu óskar Framsýn, stéttarfélag eftir viðræðum við Landsvirkjun um leiðréttingu á kjörum félagsmanna sem starfa við virkjanir fyrirtækisins á félagssvæði Framsýnar, það er við Þeistareykjavirkjun, Kröfluvirkjun og Laxárvirkjun.

Í viðræðum við Landsvirkjun hefur Framsýn komið að því innan Starfsgreinasambands Íslands að jafna kjör kynjanna innan fyrirtækisins. Að mati félagsins ætti næsta skref í jöfnun kjara innan Landsvirkjunar að vera að  ofurhækkanir til lykilstjórnenda flæði jafnframt til annarra starfsmanna. Höfum í huga að hagnaður fyrirtækja verður ekki til í excel skjali, mann-auðurinn er lykillinn að góðum rekstri, sem ber að virða.

Framsýn er fullkunnugt um að stjórnarformaður Landsvirkjunar er jafnframt formaður Kjararáðs, sem hefur hækkað laun æðstu embættismanna langt umfram það sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði undanfarin misseri. Embættismanna, sem fullir af gleði rúnta þessa dagana um borg og bæ á kostnað ríkisins, þ.e. skattgreiðenda. Hækkanir á kjörum sem sagðar eru taka mið af almennum launabreytingum á íslenskum vinnumarkaði.

Það er því von Framsýnar, stéttarfélags að sá velvilji stjórnar Landsvirkjunar til að hækka eigin laun og laun lykilstjórnenda fyrirtækisins verði til þess hún bregðist vel við beiðni stéttarfélagsins um að almennir starfsmenn innan Landsvirkjunar fái einnig notið hluta þess mikla hagnaðar sem fyrirtækið skilaði á síðasta ári.

Virðingarfyllst

 

Fh. Framsýnar, stéttarfélags

 

_______________________________

Aðalsteinn Á. Baldursson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?