Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir við Morgunblaðið í dag að það komi til greina að breyta skattkerfinu til að bæta kjör lágtekjuhópa í samfélaginu. Katrín segir þetta í samræmi við stjórnarsáttmálann og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar:
„Við höfum þegar boðað að eiga samstarf við verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins um skattkerfisbreytingar. Við höfum boðað að við séum reiðubúin að létta skattbyrði af tekjulægri hópum með einhverjum hætti. Það kemur fram í stjórnarsáttmála, og í yfirlýsingunni sem við sendum frá okkur í kringum endurskoðun samninga, að við erum tilbúin að eiga þetta samstarf og skoða um leið samspil skattkerfisins og bótakerfisins í þágu tekjulægri hópa. Ég hef lagt áherslu á að eiga gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Ég vil ekki setja þetta í skilyrða eða hótanasamhengi. Heldur finnst mér mikilvægt fyrir okkur öll í þessu samfélagi að stjórnvöld eigi gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins um mál sem lúta að ábyrgum vinnumarkaði og kjörum fólks í landinu. Þar geta stjórnvöld lagt sitt af mörkum í gegnum skattkerfið og bótakerfið. Þá er ég að tala um barnabætur og húsnæðisstuðning,“
segir Katrín við Morgunblaðið.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í gær að það væri skilyrði verkalýðshreyfingarinnar að skatta- og lánakerfinu yrði breytt í þágu tekjulágra hópa, ellegar yrði krafist sömu hækkana og hjá Kjararáði. Ef stjórnvöld yrðu ekki við þeirri kröfu, yrði verkafallsvopninu beitt. Nefndi hann auðlindargjald, hátekju- og fjármagnstekjuskatt sem dæmi til fjármögnunar á breytingum á persónuafslætti í þágu tekjulágra.
Katrín segir að það falli í hlut Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, að „leiða samtalið“ við aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á tekjuskattskerfinu og að niðurstöður gætu legið fyrir með haustinu.
„Við sjáum fyrir okkur einhverjar slíkar breytingar, ef sátt skapast um þær, við afgreiðslu næstu fjárlaga. Ég ætla hins vegar ekki að gefa mér niðurstöðuna úr samtalinu áður en það á sér stað. En okkar vilji liggur alveg skýr fyrir. Við höfum átt marga fundi með forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar, og þar á meðal Ragnari Þór, og hlustað eftir því sem hann hefur lagt áherslu á, sem er að horfa til skattkerfisins.“
Þess má til gamans geta að frá árinu 2007 hafa verið gerðar um 200 skattahækkanir og 67 skattalækkanir, líkt og úttekt Viðskiptaráðs segir til um.
Um síðustu áramót voru gerðar 19 skattahækkanir, og þrjár skattalækkanir.
Tal stjórnmálamanna um breytingar á skattkerfinu boðar því yfirleitt hækkanir á skatti, samkvæmt tölfræðinni.