Skólaárið 2015–2016 lærðu 70,8% framhaldsskólanema að minnsta kosti eitt erlent tungumál og var það fækkun um 1,4 prósentustig milli ára. Hlutfallslega fjölgaði nemendum í tungumálanámi svo aftur lítillega skólaárið 2016–2017, þegar 71,6% framhaldsskólanemenda lærðu að minnsta kosti eitt erlent tungumál. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Nemendum fækkar í dönsku
Flestir framhaldsskólanemendur lærðu ensku og voru þeir 13.683 skólaárið 2015–2016 og 13.405 árið eftir. Næstflestir nemendur lærðu dönsku, 6.509 talsins skólaárið 2015–2016 og 5.964 skólaárið 2016–2017. Nemendum í dönsku fækkaði þó töluvert milli ára, eða um tæplega 17 prósentustig frá skólaárinu 2014–2015 til 2016–2017.
Vinsældir kínverskunáms í framhaldsskóla hafa aukist en skólaárið 2015–2016 lærðu 24 nemendur kínversku, 14 piltar og 10 stúlkur. Á skólaárinu 2016–2017 voru nemendurnir 18. Áður höfðu mest 18 nemendur verið skráðir í kínversku skólaárið 2010–2011.
Hlutfall nemenda sem lærðu erlend tungumál var á bilinu 72–74% skólaárin 2003–2015. Samkvæmt tölum sem hér birtast, úr gagnasöfnun Hagstofunnar fyrir skólaárin 2015–2016 og 2016–2017, eru því vísbendingar um að nemendum í tungumálanámi fari fækkandi.
Þegar fjöldatölur eru skoðaðar hefur nemendum sem læra erlend tungumál fækkað úr 17.400 skólaárið 2014–2015 í tæp 16.200 skólaárið 2016–2017 sem er í samræmi við um 1.500 nemenda fækkun á framhaldsskólastigi á tímabilinu. Í mörgum framhaldsskólum tók breytt skipulag námsbrauta til stúdentsprófs gildi haustið 2015, þar sem nám til stúdentsprófs var stytt. Þar með fækkaði áföngum í erlendum tungumálum sem nemendur þurfa að taka til stúdentsprófs og gæti það að hluta til skýrt fækkun nemenda í tungumálanámi.
Stúlkur velja frekar spænsku en piltar þýsku
Á árunum 2015–2017 voru spænska og þýska þau tungumál sem flestir lærðu sem þriðja erlenda tungumálið líkt og fyrri ár. Skólaárið 2012–2013 lærðu í fyrsta skipti fleiri nemendur spænsku en þýsku og hefur sú þróun haldið áfram síðustu ár. Alls lærðu 4.200 nemendur spænsku skólaárið 2016–2017 en 3.837 nemendur lærðu þýsku. Stúlkur læra frekar spænsku, en um það bil 2.500 stúlkur voru skráðar í spænskuáfanga hvert skólaár frá 2015–2017 á móti um það bil 1.900 stúlkum í þýsku. Hjá piltum er þýska vinsælli en spænska, en tæplega 1.900 piltar lærðu þýsku á árunum 2015–2017 á móti rúmlega 1.600 piltum í spænsku.
Sú breyting varð skólaárið 2014–2015 að piltar sem lærðu erlend tungumál voru fleiri en stúlkur, þótt munurinn hafi verið óverulegur. Á skólaárinu 2015–2016 fækkaði piltum sem lærðu erlend tungumál um tæp þrjú prósentustig. Hlutfall stúlkna sem lærðu erlend tungumál stóð hins vegar í stað og eru stúlkur því aftur orðnar fleiri en piltar í tungumálanámi.
Flestir læra tvö tungumál
Að meðaltali lærðu nemendur í framhaldsskólum 1,31 tungumál á ári 2015–2017 sem er sambærilegt við fyrri skólaár. Flestir nemendur læra tvö tungumál á sama skólaári, eða um 45% þeirra nemenda sem læra tungumál, og hefur það hlutfall haldist svo til óbreytt frá 2013–2014.
Um gögnin
Gögnum um tungumálanám nemenda í framhaldsskólum er safnað tvisvar á ári. Einungis eru taldir þeir nemendur framhaldsskóla í tungumálanámi á vormisseri sem einnig eru skráðir í nám á haustmisseri sama skólaár. Aðeins eru taldir þeir nemendur sem læra tungumál viðkomandi skólaár. Upplýsinga er eingöngu aflað um nemendur í lifandi tungumálum og því eru ekki taldir nemendur í forngrísku, latínu eða esperantó.