Niðurstaða kosninga úr stjórnarkjöri Eflingar-stéttarfélags er nú ljós, en úrslit lágu fyrir á fyrsta tímanum í nótt. Sólveig Anna Jónsdóttir verður næsti formaður Eflingar-stéttarfélags og mun hún taka við af Sigurði Bessasyni, fráfarandi formanni, á aðalfundi félagsins þann 26. apríl nk.
Listi Sólveigar Önnu, B, fékk 2099 atkvæði en A listi stjórnar og trúnaðarráðs fékk 519 atkvæði. Sólveig Anna vann því yfirburðarsigur með um 80% atkvæða gegn 20%.
„Eins og við höfum verið að segja, þá er láglaunafólki og verkafólki einfaldlega svo viðbjóðslega misboðið; því misbýður svo ástandið í þessu íslenska arðránssamfélagi að þegar það stígur fram fólk og fer að lýsa með einföldum og skýrum hætti því sem er að eiga sér stað í íslensku samfélagi, þá tekur fólk undir það. Það sem við höfum gert er að lýsa aðstæðunum sem við erum látin búa við, og það er það sem hefur skilað okkur þessum ótrúlega árangri – að við vorum ekkert að bulla, við bara töluðum hreint og beint, frá hjartanu, og lýstum nákvæmlega þeim aðstæðum sem íslenskt verkafólk er látið búa við.“
sagði Sólveig Anna við RÚV, aðspurð um ástæðuna fyrir sigrinum.
Þeir sem voru með Sólveigu Önnu á lista og taka sæti í stjórn Eflingar eru Magdalena Kwiatkowska hjá Café Paris, Aðalgeir Björnsson, tækjastjóri hjá Eimskip, Anna Marta Marjankowska hjá Náttúru þrif, Daníel Örn Arnarsson hjá Kerfi fyrirtækjaþjónustu, Guðmundur Jónatan Baldursson, bílstjóri hjá Snæland Grímsson, Jamie Mcquilkin hjá Resource International ehf. og Kolbrún Valvesdóttir, starfsmaður búsetuþjónustu Reykjavíkurborgar.
Úrslit kosninganna voru þannig:
Á kjörskrá voru 16.578 félagsmenn og af þeim greiddu 2.618 atkvæði.
B listi Sólveigar Önnu Jónsdóttur fékk 2099 atkvæði.
A listi stjórnar og trúnaðarráðs fékk 519 atkvæði.
Auðir seðlar voru 6 og ógildir voru 4.
Tveir listar voru í framboði í stjórnarkjöri Eflingar-stéttarfélags. Átta einstaklingar skipa hvorn lista, formaður, gjaldkeri og sex meðstjórnendur, en fullskipuð stjórn er fimmtán manna með þeim stjórnarmönnum sem kosnir voru á síðasta ári.