Félag atvinnurekenda hefur skrifað Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bréf, þar sem andmælt er margvíslegum kröfum Bændasamtaka Íslands um viðskiptahömlur, sem settar voru fram í bréfi til ráðherra 23. febrúar síðastliðinn. Þessar kröfur BÍ voru svo að flestu leyti endurteknar í ræðu Sindra Sigurgeirssonar,formanns samtakanna, við setningu Búnaðarþings í gær. Þetta kemur fram á vef FA.
Grafið undan EES?
Á meðal krafna BÍ er að Ísland uni ekki dómi EFTA-dómstólsins um að leyfa beri innflutning á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk. BÍ vill að reynt verði að semja við Evrópusambandið um að viðhalda innflutningsbanninu. FA bendir á að samningaviðræður fóru fram fyrir mörgum árum og að mati stjórnvalda þá gekk ekki upp að Ísland tæki matvælalöggjöf ESB upp að fullu á sviði sjávarútvegs, þar sem útflutningshagsmunir Íslands eru gífurlega miklir, en neitaði að ganga alla leið á sviði landbúnaðarins til að verja íslenskan landbúnað fyrir innflutningi. Jafnframt hafi það þá verið mat færustu sérfræðinga að afnám innflutningsbannsins myndi ekki hafa neikvæð áhrif á dýra- eða lýðheilsu.
„Ef íslenzk stjórnvöld leituðu nú til Evrópusambandsins um að semja sig frá dómi EFTA-dómstólsins – byggðum á þeim samningum sem Ísland gerði á sínum tíma við ESB – væri augljóslega verið að grafa bæði undan EES-samningnum sjálfum og því stofnanakerfi sem sett hefur verið upp til að hafa eftirlit með honum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum,“
segir í bréfi FA.
Niðurstaðan blasti við í áratug
Bændasamtökin krefjast þess í bréfi sínu að eigi að afnema innflutningsbannið á ferskvöru, verði gefinn að lágmarki þriggja ára aðlögunartími að þeirri breytingu. FA bendir á að í rúman áratug hafi stjórnvöldum verið ljóst að innflutningsbannið væri brot á EES-samningnum og að nánast útilokað væri að það stæðist fyrir dómstólum. „Sé Ísland ekki reiðubúið að bregðast nú hratt við niðurstöðu sem var fyrirséð allan þann tíma, verður það að teljast vítavert tómlæti,“ segir í bréfi FA til ráðherra.
Fá neytendur tíföldun á tollkvóta fyrir kjúkling?
Önnur krafa sem Bændasamtökin settu fram í bréfi sínu, er að magntollar, þ.e. krónutölutollar sem leggjast á hvert kíló innflutnings, verði uppreiknaðir til þess að þeir „skili árangri“. Við gerð síðustu búvörusamninga voru tollar á mjólkurvörum að kröfu BÍ uppreiknaðir frá árinu 1995, er WTO-samningurinn tók gildi hér á landi. Í bréfi FA er bent á að með þeim samningum hafi einkaaðili, Bændasamtök Íslands, í raun samið við ríkið um að hækka skatta á öðrum einkaaðilum, keppinautum sínum, sem flytja inn matvöru. Fráleitt væri að endurtaka þann leik.
„Þvert á móti er rík ástæða til að lækka tolla til að efla samkeppni við innlendan landbúnað. Alþýðusamband Íslands benti nýlega á það hvernig verð mjólkurvara hefði hækkað umfram almenna verðlagsþróun vegna þess hversu rækilega mjólkuriðnaðurinn er varinn fyrir samkeppni frá innflutningi,“
segir í bréfi FA.
FA bendir á að algengast er að bæði magntollar og 30% verðtollur leggist á innflutning búvara, sem ætti að þykja drjúg vernd fyrir samkeppni. Þá vekur FA jafnframt athygli á því að tollkvótar, þ.e. takmarkaðar heimildir til innflutnings á lægri tolli, sem tóku gildi um leið og umræddir tollar, hafa á sama tíma rýrnað gríðarlega að raungildi. Þannig ætti tollkvóti fyrir alifuglakjöt að tífaldast ef hann ætti að vera sama hlutfall af innanlandsneyslu og miðað var við í WTO-samningnum, svo dæmi sé tekið.
Í bréfi FA segir að það hljóti að vera sanngjarnt, verði farið fram á að bændur fái leiðréttingu á tollum sem miðast við gildistöku WTO-samningsins, að innflytjendur og neytendur fái sambærilega leiðréttingu vegna þeirrar þróunar sem síðan hefur orðið.