fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Eyjan

Óbreyttir stýrivextir enn um sinn

Trausti Salvar Kristjánsson
Þriðjudaginn 6. mars 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stýrivextir eru nú í sögulegu lágmarki, eftir vaxtalækkun Seðlabankans í dag.

Samkvæmt greiningu Íslandsbanka verða stýrivextir óbreyttir er þeir verða kynntir af peningastefnunefnd Seðlabankans þann 14. mars. Horfur um efnahagsþróun og verðbólgu á komandi misserum hafa fremur lítið breyst frá síðustu vaxtaákvörðun í febrúar síðastliðnum, enda skammt um liðið. Við þá ákvörðun var peningastefnunefndin sammála um að halda vöxtum óbreyttum, og raunar voru aðrir möguleikar ekki ræddir af neinni alvöru ef marka má fundargerð febrúarfunda nefndarinnar.

 

 

 

 

Framsýna leiðsögnin mun væntanlega verða hlutlaus líkt og raunin var í febrúar. Lítillega hefur dregið úr mældri verðbólgu frá febrúarákvörðuninni, en á móti hefur verðbólguálag á markaði þokast upp á við frá áramótum. Þá hefur dregið úr tímabundinni óvissu á vinnumarkaði eftir að ákveðið var að helstu kjarasamningar á almennum markaði myndu gilda út yfirstandandi ár.

Raunstýrivextir mjakast neðar

Frá miðju síðasta ári hafa raunstýrivextir lækkað nokkuð á alla mælikvarða. Á seinni hluta síðasta árs nam lækkun raunstýrivaxtanna 0,8% – 1,2% m.v. mismunandi mælikvarða. Það sem af er ári hafa raunstýrivextirnir lækkað lítillega til viðbótar miðað við verðbólguálag á skuldabréfamarkaði og verðbólguvæntingar markaðsaðila.

Við síðustu vaxtaákvörðun veitti peningastefnunefndin þessari þróun eftirtekt samkvæmt fundargerð. Frá þeirri ákvörðun hafa raunstýrivextirnir lækkað nokkuð til viðbótar á mælikvarða verðbólguálags á markaði, en hækkað lítillega miðað við liðna verðbólgu. Þessi þróun mun væntanlega a.m.k. ekki auka líkurnar á vaxtalækkun nú, þótt ekki sé um verulegar breytingar að ræða frá febrúarákvörðuninni.

Reynist hagvöxtur 2017 meiri en Seðlabankinn spáði?

Við ákvörðunina í næstu viku munu liggja fyrir bráðabirgðatölur Hagstofunnar fyrir landsframleiðslu á öllu árinu 2017, en þær verða birtar föstudaginn 9. mars. Líklegt er að peningastefnunefndin rýni töluvert í þær tölur, ekki síst hvað varðar þróun opinberra fjármála og atvinnuvegafjárfestingar. Tilslökun í opinberum fjármálum á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs fór ekki sérlega vel í nefndina, og taldi hún að spennan í hagkerfinu gæfi ekki tilefni til slíkrar tilslökunar.

Fyrirliggjandi hagvísar benda til þess að aðeins hafi dregið úr vexti einkaneyslu á síðasta fjórðungi ársins. Þá hefur framlag utanríkisviðskipta til vaxtar væntanlega verið neikvætt. Við teljum að hagvöxtur hafi numið 4,1% á síðasta ári, en Seðlabankinn áætlaði vöxtinn 3,4% í febrúarspá sinni. Ef vöxturinn reynist í samræmi við okkar spá vegna meiri vaxtar í innlendri eftirspurn en Seðlabankinn áætlaði mun peningastefnunefndin sjá ástæðu til meira aðhalds en ella.

Krónan með kyrrum kjörum

Frá miðjum ágúst í fyrra hefur gengi krónu verið fremur stöðugt og virðist vera allgott jafnvægi í fjármagnsflæði til og frá landinu þessa dagana. Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur krónan styrkst um ríflega prósentu á mælikvarða gengisvísitölu og er hún nú á svipuðum slóðum og á fyrri hluta desembermánaðar.

Peningastefnunefndin var í febrúar ánægð með stöðugleika krónu og taldi að gjaldeyrismarkaðurinn hefði verið í ágætu jafnvægi milli funda. Vafalítið mun nefndin áfram gleðjast yfir stöðugri krónu, enda hafa skammtímasveiflur í verðbólgu gjarnan tengst gengisbreytingum krónunnar. Stöðugleiki í gengi krónu ætti því að hjálpa til við að halda verðbólguvæntingum stöðugum og leiða á endanum til lægri vaxta en ella ef hægviðri heldur áfram að ríkja á gjaldeyrismarkaði.

Verðbólga og verðbólguálag á svipuðum slóðum

Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur verðbólga hjaðnað lítillega, úr 2,4% samkvæmt janúarmælingu Hagstofunnar í 2,3% í febrúar. Hins vegar benti samsetning verðbólgunnar í febrúar til þess að nokkur verðþrýstingur væri enn á íbúðamarkaði. Það gæti orðið peningastefnunefndinni nokkur þyrnir í auga þar sem hún taldi í febrúar líkur á að hækkun íbúðaverðs í janúarmælingu VNV gæti verið skýrst af einstöku fráviki. Við teljum þó horfur á að verðbólga verði áfram við markmið Seðlabankans fram á mitt ár, en fari hins vegar lítillega yfir markmiðið á seinni hluta ársins. Á næsta ári sæki verðbólga í markmiðið að nýju.

Verðbólguspá Seðlabankans í febrúar hljóðaði upp á verðbólgu í grennd við markmið út þetta ár, en lítillega undir markmiði á næsta ári. Hins vegar er sá munur á þessum spám að Seðlabankinn gerir ráð fyrir lækkun efra þreps virðisaukaskatts um næstu áramót, ólíkt okkur. Sé sú forsenda tekin út úr spá Seðlabankans eru spár bankans og okkar spá býsna líkar fyrir komandi misseri.

Verðbólguálag á markaði hefur lítið breyst frá síðustu vaxtaákvörðun. Álagið er nú á bilinu 2,9% til 3,4% miðað við vaxtaferla ríkisbréfa frá 3 til 10 ára. Álagið er því nokkuð yfir verðbólgumarkmiðinu líkt og við síðustu vaxtaákvörðun. Þá hafði peningastefnunefndin ekki verulegar áhyggjur af þessum mun, þar sem hún taldi hann líklega endurspegla áhættuálag frekar en hærri verðbólguvæntingar. Trúlega verður það sama uppi á teningnum nú.

Spáum vaxtalækkun á komandi misserum

Vaxandi verðbólga mun að mati okkar áfram leiða til nokkurrar lækkunar raunstýrivaxta á komandi fjórðungum að öðru óbreyttu. Þar sem verðbólguhorfur virðast allgóðar og útlit er fyrir að hægi á hjólum hagkerfisins þegar frá líður teljum við samt sem áður að Seðlabankinn muni lækka vexti þegar fram í sækir, spenna í hagkerfinu minnkar og verðbólguhorfur batna nokkuð á nýjan leik. Nafnstýrivextir gætu því lækkað um hálfa prósentu fyrir lok árs 2019 samkvæmt spá okkar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka