Theodóra S. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar í Kópavogi, segir við Morgunblaðið að flokkurinn muni bjóða fram sameiginlegan lista með Viðreisn í komandi sveitastjórnarkosningum.
„Við munum bjóða fram sameiginlegan lista með Viðreisn í Kópavogi. Það hefur verið tekin ákvörðun um að ég muni leiða listann. Viðreisn mun síðan skipa Einar í annað sæti listans,“
segir Theodóra við Morgunblaðið, en nefndur Einar er Þorvarðarson, fyrrum framkvæmdarstjóri HSÍ og landsliðsmarkvörður, sem er fulltrúi Viðreisnar á listanum. Hún segir að Viðreisn hafi óskað eftir samstarfinu og nú sé verið að vinna stilla upp sameiginlegum lista, sem gangi vel, klárist líklega í næstu viku.
Samkvæmt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, eru viðræður einnig að eiga sér stað við aðra flokka á öðrum stöðum.
„Við höfum átt samtal í Hafnarfirði og svo auðvitað Kópavogi. Þá erum við að ræða við nokkra flokka á ákveðnum stöðum, ekki einungis Bjarta framtíð heldur fleiri. Það gengur vel hjá okkur úti á Seltjarnarnesi og svo er fínn gangur í Garðabænum. Uppstillingarnefndin er að störfum í nokkrum sveitarfélögum, en þetta er margt fólk og tekur allt sinn tíma. Við munum bjóða fram á flestum stöðum með beinum eða óbeinum hætti,“
segir Þorgerður í Morgunblaðinu.