Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði í Silfrinu í hádeginu að sér þætti synd að sjá viðhorf Sjálfstæðisflokksins gagnvart Áslaugu Friðriksdóttur borgarfulltrúa flokksins, sem var ekki boðið sæti á lista, þrátt fyrir að hafa lent í öðru sæti í leiðtogakjörinu. Þetta sagði Þorgerður í því sem mætti kalla „óspurðum fréttum“, sem gæti rennt stoðum undir þá kenningu að Viðreisn hefði boðið Áslaugu sæti á lista sínum fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí.
Þorgerður sagði hinsvegar við Eyjuna, að svo væri ekki:
„Nei nei, mér skilst að svo sé ekki. Maður hefur samt skoðanir á því þegar ekki er verið að fara vel með fólk. Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega ekkert að breytast hvað þetta varðar. Strákarnir fá alltaf sitt, en það er allt í lagi að skipta stelpunum út með þessum hætti. Þetta segir manni að jafnréttissjónarmiðin eru bara ekki til staðar þegar á reynir. En Áslaug er gríðarlega öflugur borgarfulltrúi,“
sagði Þorgerður og undirstrikaði að val á frambjóðendum væri ekki miðstýrð ákvörðun, heldur væri í höndum uppstillingarnefndar Reykjavíkurfélags Viðreisnar.
Lítið hefur borið á Áslaugu eftir að hún sendi frá sér tilkynningu í kjölfar þess að ljóst væri að hún yrði ekki á lista Sjálfstæðisflokksins í næstu kosningum. Áslaug sakaði þar Sjálfstæðisflokkinn um að breyta leikreglunum, þegar ákveðið var að fara í leiðtogakjör á sínum tíma, í stað hefðbundins prófkjörs.