Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins/frettabladid.is telja 47 prósent þeirra sem afstöðu tóku, að nýr Landspítali eigi ekki að rísa við Hringbraut, líkt og áformað er. Samtals 39 prósent vilja sjá spítalann rísa við Hringbrautina. Hlutlausir í afstöðu sinni eru 13 prósent.
Andstaðan við fyrirhugaða staðsetningu við Hringbraut er meiri meðal þeirra sem eru 50 ára og eldri og hún er einnig meiri meðal karla en kvenna.
„Þetta kemur ekkert á óvart vegna þess að ég efast um að það sé nokkurt annað mál sem ég hef beitt mér fyrir í pólitík sem fær önnur eins viðbrögð og þetta mál,“
segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins við Fréttablaðið í dag, en hann hefur verið einn ötulasti talsmaður þess að spítalinn rísi ekki við Hringbrautina, heldur Vífilstaði. Þá finnst honum Víðidalur líka fýsilegur kostur.
„Keldnalandið hefur verið nefnt og mér finnst það góður kostur. Aðalatriðið er að þetta sé staður sem hafi andrými og umferðartengingar sem henta,“
segir Sigmundur.
„Könnunin var gerð þannig að hringt var í 1.322 manns með lögheimili í Reykjavík þar til náðist í 800 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 26. og 27. febrúar. Svarhlutfallið var 60,5 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir aldri. 90 prósent þeirra sem svöruðu tóku afstöðu til spurningarinnar.“