Kristinn H. Gunnarsson ritar:
Framkomið er frumvarp á Alþingi að lögum sem mælir fyrir um bann við umskurði drengja að viðlagðri harðri refsingu, allt að 6 ára fangelsisvist. Helstu ástæður fyrir umskurði eru trúarlegar, menningarlegar, félagslegar og auðvitað heilsfarslegar. Stuðningur við málið er breytilegur út frá öllum þessum atriðum þannig að viðhorf foreldra er mjög bundið því í hvaða samfélagi þeir búa. Nærri 40% sveinbarna í heiminum mun vera umskorinn og þegar við er bætt foreldrum þeirra, sem taka ákvörðunina, varðar málið líklega um helming mannkyns.
Frumvarpið er slæmt bæði að formi og efni, þarflaust og gerir fátt annað en að efna til ófriðar að óþörfu. Er engu líkara en að Þorgeir Hávarsson úr Fóstbræðrasögu sé genginn aftur hálfu verri en hann áður var.
Tómamengi
Foreldrar hér á landi eru nær allir andvígur umskurði. Hann er ekki hluti af trú, menningu eða félagslegu umhverfi. Ekki þarf að banna það sem ekki er gert. Tilefnið er nánast tómamengi. Þá hafa umskornir menn ekki gert kröfu til Alþingis um bann. Hin meintu fórnarlömb líta ekki á sig sem fórnarlömb og eiga ekki aðild að málatilbúnaðinum eftir því sem best verður séð. Foreldrarnir eru þeir sem taka ákvörðun um umskurð og þeir hafa ekki sent áskorun til þingmanna um lagasetningu. Hver er þá að biðja um bannið? Niðurstaðan verður að bannið beinist gegn innflytjendum og útlendingum búsettum hér á landi sem eiga aðrar hefðir að þessu leyti. Þeir hópar verða jaðarsettir og skilgreindir sem glæpamenn og þá væntanlega jafnframt óhæfir sem foreldrar.
Gallar
Frumvarpið er verulega gallað. Í textanum er talað líkamsárás sem veldur tjóni á heilsu barns eða konu og viðkemur kynfæri. Umskurður sveinbarna hefuð verið við líði í þúsundir ára og gætu snert um 200 kynslóðir, hverja á fætur annarri. Það þarf mikið hugarflug til þess að kalla líkamsárás slíka aðgerð sem foreldrar ákveða fyrir sitt eigið barn. Þá er miðað við frumvarpstextann þessi líkamsárás talin í lagi ef um karlmann af barnaaldri er að ræða. Þegar hins vegar konur eiga í hlut er umskurður bannaður alltaf. Þessi mismunandi niðurstaða er ekki rökstudd. Þá myndu samkvæmt frumvarpinu verða ólögmæt inngrip í líkamann aðgerðir sem þegar eru gerðar svo sem kynfæralagfæringar á intersex börnum og kynleiðrétting. Þá verður ekki bara sá sem framkvæmir aðgerðina dæmdur glæpamaður og settur í 6 ára fangelsi heldur foreldrar líka. Þeir vilja aðgerðina og taka ákvörðun og hljóta að falla undir lagatextann hver sá sem veldur tjóni á líkama o.s.frv.
Rannsóknir
Þá styðja rannsóknir ekki bann við umskurði þótt það sé mismunandi hvaða gagn eða tjón talið er að fylgi umskurði. Bandarísku barnalæknasamtökin AAP, sem studd er af samtökum fæðingar- og kvensjúkdómalækna telja í stefnu sinni frá 2012 að heilsufarslegur ávinningur af umskurði á ungabörnum sé meiri en áhættan sem fylgir aðgerðinni og það réttlæti að umskurður skuli vera til staðar sem möguleiki fyrir þá foreldra sem það kjósa. Samtökin leggja mikla áherslu á að foreldrar taki ákvörðunina að fengnum bestu fáanlegum upplýsingum. Ári seinna sendi hópur lækna utan Bandaríkjanna frá sér gagnrýni á skýrslu AAP og telja þeir að kostirnir séu ofmetnir og gallar vanmetnir í skýrslunni. AAP hefur ekki breytt áliti sínu. Hópur ástralskra vísindamanna sendi frá sér 2012 skýrslu um málið með svipaðri niðurstöðu og bandarísku barnalæknasamtökin. Telja Ástalarnir að umskurður hafi ávinning í för með sér varðandi ýmsa sjúkdóma bæði fyrir karlmanninn og maka hans, fylgikvillar séu mjög fátíðir, innan við 1% og að jafnaði minni háttar. Þeir telja að um helmingur óumskorinna karlmanna muni þurfa einhvern tíma á lífsleiðinni læknisaðstoð vegna þess að þeir eru með forhúð. Að lokum skal bent á samantekt Sundhedsstyrelsen í Danmörku frá 2013. Meginniðurstaða Dananna var að ekki væru sá heilsufarlegi ávinningur af umskurði að rétt væri að mæla fyrir um hann, en ekki væri heldur sú áhætta að ástæða væri til þess að banna.
Menning og trú annarra
Draga má saman málið þannig að það snúist um vilja til þess að umbera siði, menningu og trú annarra eða vilja til þess að gera það að glæp sem Íslendingum geðjast ekki að. Í umræðugarginu í netheimum eru heykvíslarnar á lofti en staðreyndir málsins bera ekki með sér líkamstjón, en kannski ekki vissu fyrir miklu gagni heldur. Það er alveg óhætt að anda rólega og láta t.d. óvilhalla aðila draga saman í skýrslu tiltækt efni um málið áður en lengra er haldið.
Kristinn H. Gunnarsson