fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Eyjan

Alls 75% matvæla heimsins framleidd úr tólf plöntutegundum og fimm dýrategundum

Trausti Salvar Kristjánsson
Fimmtudaginn 1. mars 2018 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á tíu ára afmæli Alþjóðlegu fræhvelfingarinnar á Svalbarða voru viðstaddir fulltrúar 23 erfðabanka víðs vegar að úr heiminum sem varðveita fræsöfn í hvelfingunni. Ljósmyndari Torfí Jóhannesson – norden.org

„Sérfræðingar halda því stundum fram að Alþjóðlega fræhvelfingin á Svalbarða sé mikilvægasta rými í heiminum og eru þá ekki að grínast. Fólk um allan heim ætti að taka mark á þeim,“

segir á norden.org, vef um Norrænt samstarf. Þar er fjallað um Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða og mikilvægi hennar þegar kemur að fæðuöryggi til framtíðar:

Erfðaauðlindir plantna eru ein dýrmætasta eign samfélaga mannkynsins. Plöntur sem við notum í dag eru ræktuð afbrigði, afrakstur árþúsunda ræktunar, og sniðin að smekk okkar, þörfum og framleiðsluaðferðum. Í aldanna rás hafa ótal yrki verið kynbætt með tilliti til mismunandi skilyrða til vaxtar; veðurfars, jarðvegs, dagalengdar, sjúkdóma eða farsótta og þarfa samfélagsins. En vegna þess að hagkerfi heimsins eru samofin og einsleit og stýring framleiðsluumhverfisins hefur aukist hættir okkur til að reiða okkur á æ færri afbrigðum af fjölbreytileikanum. Allt að 75% erfðafjölbreytni plantna hafa tapast frá því á tíunda áratug síðustu aldar vegna þess að bændur um allan heim hafa hætt ræktun á fjölmörgum staðbundnum landsstofnum og tekið upp í staðinn einsleitari tegundir sem gefa mikið af sér. Einsleitni erfðavísa er áhættusöm, hnattrænt og staðbundið. Um 75% matvæla í heiminum í dag eru framleidd úr eingöngu tólf plöntutegundum og fimm dýrategundum. Loftslagsbreytingar, nýir sjúkdómar eða aðrar umhverfisbreytingar geta því haft víðtækar afleiðingar fyrir fæðuöryggið.

Listir og vísindi skapa mótvægi

Fræbankar eru viðleitni til að vega á móti víðtæku tapi á líffræðilegri fjölbreytni. Áætlað er að um tvær milljónir fræsafna séu varðveittar í fræbönkum um allan heim. Listin að halda lífi í fræjunum byggir á vísindum. Flestum fræjum er haldið áratugum saman í köldum og þurrum gámum en ævilengd þeirra fer eftir tegundum og ýmsum öðrum þáttum. Þegar draga fer úr spírunargetu plantnanna verður að gróðursetja þær í hentugum jarðvegi til að lífga þær við. Dæmigerður fræbanki varðveitir þúsundir ef ekki hundruð þúsunda fræsafna og því er mikilvægt að starfsfólkið sé áhugasamt og vel menntað og að bankarnir séu staðsettir í hentugu umhverfi. Plönturnar eru tíndar og nýjum fræskammti er pakkað inn og hann settur í geymslu þar til hans verður vitjað jafnvel áratugum síðar.

Hvernig framtíðin er tryggð

En hvað gerist ef eitthvað kemur fyrir geymsluna? Hvað ef rafmagnið fer af frystinum, ef flæðir, ef hann verður fyrir sprengjuárás eða skemmist á annan hátt? Flest höfum við lesið um umsátrið í síðari heimsstyrjöldinni um Leníngrad (nú Pétursborg) þegar grasafræðingarnir hjá Valilov-stofnuninni kusu frekar að deyja úr hungri en að hrófla við fræsöfnunum sem þeim hafði verið treyst fyrir. Þau áttuðu sig á því hvað fræbankinn var mikilvægur fyrir innlenda matvælaframleiðslu í framtíðinni og að glataðar auðlindir yrðu ekki endurheimtar.

Sú er ástæðan fyrir því að öryggiseintök af fræbönkum verða að vera til og öryggiseintök af öryggiseintökunum. Það má heldur ekki varðveita þau öll í sömu byggingunni, sömu borg eða jafnvel sama veðurfarsbelti. Tryggja verður jafnvel við hættulegustu aðstæður að til séu öryggiseintök einhvers staðar í heiminum af gróðurtegundum sem eru undirstaða matvælaframleiðslu.

Einhvers staðar

Alþjóðlega fræhvelfingin á Svalbarða er einmitt „einhvers staðar í heiminum“. Tæplega er hægt að tala um auðvelt aðgengi að hvelfingu sem norsk stjórnvöld hafa grafið djúpt inn í fjall í tólf hundruð kílómetra fjarlægð frá norðurskauti. Enda á hún ekki að vera aðgengileg. Í alþjóðlegu fræhvelfingunni eru varðveitt öryggiseintök af meira en 40% af fræsöfnum heimsins. Næstum ein milljón fræsafna er innsigluð í vandaðar umbúðir til vonar og vara ef eitthvað kæmi fyrir frumeintökin. Fræhvelfingin er stundum kölluð „mikilvægasta rýmið í heiminum“. Má vera að fullsterkt sé tekið til orða en enginn vafi leikur á því að hvelfingin er ein mikilvægasta varúðarráðstöfun í heiminum. Og hún virkar!

Nýtt skapað úr gömlu

Í styrjöldinni á Sýrlandi einangraðist mikilvæg fræhvelfing í Aleppo þar sem meira en 135 þúsund afbrigði voru varðveitt og flest þeirra af útdauðum tegundum. Fræin hafa gífurlegt sögulegt og menningarleg gildi vegna þess að vagga landbúnaðarins er einmitt á slóðum Sýrlands hins forna. Mikilvægastir eru kannski erfðaeiginleikar hinna fornu nytjaplantna á Sýrlandi, það er viðnámsþróttur gagnvart hita og þurrki. Svo vel vildi til að varaeintök af fræsöfnum hvelfingarinnar í Aleppo voru varðveitt í Alþjóðlegu fræhvelfingunni á Svalbarða. Árið 2015 voru 90 þúsund fræsöfn flutt úr hvelfingunni til Líbanons og Marokkó þar sem verið er að skapa nýja fræbanka í stað hins gamla. Um leið og ný fræ urðu til voru eintök af þeim send aftur til öruggrar varðveislu á Svalbarða.

Þannig starfa erfðabankar. Þeir halda utan um hina gríðarlegu fjölbreytni plöntuyrkja sem bændur rækta um heim allan. Við erum sem betur fer farin að átta okkur á þeim verðmætum sem felast í fjölbreytilegum matvælum. Fólk um allan heim er að uppgötva bragð og áferðir á ný sem leynast í ýmsum afbrigðum plantna. Sem dæmi má nefna afbrigði beiskjubragðs sem ræktun hefur útrýmt í skiptum fyrir sætubragð, auk þess sem seigja, form og litir plantanna eru orðin fábrotnari. Næst þegar þið rekist á skrítinn kálhaus eða gulrót sem er ekki dísæt skulið þið ekki fussa við grænmetinu því þetta gæti verið ykkar tækifæri til að bjarga heiminum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Arnar Þór Jónsson: Það er siðrof á íslenskum fjármálamarkaði – kannski þarf að setja lög á Seðlabankann

Arnar Þór Jónsson: Það er siðrof á íslenskum fjármálamarkaði – kannski þarf að setja lög á Seðlabankann
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Sigurður Ingi ræðst á Bjarna Ben – „Þegar ölið er af könnunni er vináttan úti“

Orðið á götunni: Sigurður Ingi ræðst á Bjarna Ben – „Þegar ölið er af könnunni er vináttan úti“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út