fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Eyjan

Morgunblaðið vill ritskoða RÚV vegna grínatriðis Jóns Gnarr

Trausti Salvar Kristjánsson
Fimmtudaginn 1. mars 2018 09:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyþór Arnalds

Höfundur Staksteina tekur aldeilis upp hanskann fyrir Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins og einn aðaleiganda Árvakurs, í dag. Tilefnið er grínatriði Jóns Gnarr í þætti sínum á Rás 2, hvar hann grínaðist með heimsókn Eyþórs í Höfða á dögunum. Ganga Staksteinar svo langt, að kalla eftir skoðun á reglum um hlutleysi RÚV í aðdraganda kosninga, en beita fyrir sér Andrési Magnússyni, fjölmiðlarýni Viðskiptablaðsins í þeim efnum:

 

„Andrés Magnússon, fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins, gerir þátt Jóns Gnarr í Ríkisútvarpinu á dögunum að umtalsefni. Andrés lýsir því í pistli sínum í liðinni viku að í þætti Jóns hafi mátt „heyra ákaflega fyndna dagskrá, þar sem yrkisefnið var heimsókn Eyþórs Arnalds í Höfða á dögunum. Jón setti það allt í annað samhengi, beinskeytt og fyndið, en græskulaust. Og af því pólitíkin er skrýtin mun Eyþór sjálfsagt engu tapa á því þó að Jón hafi verið að skensast þetta. En það má samt sem áður vel velta því fyrir sér hversu vel fer á því að í Ríkisútvarpinu – með allar sínar lögbundnu skyldur um hlutleysi, sanngirni og jafnvægi – sé fyrrverandi borgarstjóri, samverkamaður núverandi borgarstjóra, launamaður hjá Samfylkingunni um stutta hríð, með pólitíska revíu á öldum ljósvakans, þar sem skotspónninn er helsti áskorandinn í komandi kosningum. Það vildi svo til að þetta var ekki meiðandi, en er þetta fyrirkomulag ekki eitthvað sem þyrfti að leiða hugann að áður en eitthvað ber út af? Hjá Ríkisútvarpinu eru til ýmsar reglur um vinnubrögð í aðdraganda kosninga, þó þeim hafi ekki alltaf verið fylgt. Ætti ekki að skoða þær?“

Þá segja Staksteinar:

„Auðvitað er sjálfsagt fyrir Ríkisútvarpið að velta því fyrir sér hvort það sinni lögboðnu hlutverki sínu með eðlilegum hætti. Augljóst er að slík athugun myndi leiða í ljós að pottur er brotinn, en þess þá heldur skoða málið.“

Svo virðist sem að Morgunblaðið sé ansi hörundssárt fyrir hönd eins eigenda blaðsins. Jafnvel þó svo sjálfur Andrés Magnússon telji grínið vera „græskulaust“ telur hann grínið ekki hafa skaðað Eyþór að þessu sinni, vegna þess að pólitíkin sé svo „skrýtin.“

Virðist því um einskæra heppni að ræða í þessu tilfelli, að Eyþór hafi ekki beðið skaða vegna gríns Jóns Gnarr á hans kostnað. En ljóst er á máli Andrésar og Staksteina, að ekki borgi sig að taka neina áhættu með slíkt grín í framtíðinni og því þurfi að „skoða málið“.  Með öðrum orðum, ritskoðun, eða jafnvel blátt bann við gríni í garð frambjóðenda í aðdraganda kosninga.

Þeim sem er annt um Áramótaskaupið verða því að vona að stjórnarslit eigi sér ekki stað rétt fyrir áramót, nema auðvitað að grín verði gert að öllum hlutaðeigandi jafnt.

 

Ekki er útilokað að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, haldi á Staksteinapennanum að þessu sinni, en hann hefur gjarnan látið málefni RÚV sig varða. Það verður þó að teljast skjóta skökku við að Davíð Oddsson skuli skrifa svo óvarlega um málfrelsið, sem grínið er hluti af, ekki aðeins vegna stefnu Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að frelsi ýmiskonar, heldur einnig vegna þess að Davíð er annálaður húmoristi og var sjálfur með grínþætti á RÚV á sínum tíma, Útvarp Matthildi.

Þess er vert að minnast að Andrés sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum árið 2011 í kjölfar Icesave málsins, en hann er bróðir Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúans sem Eyþór Arnalds sniðgekk nýlega við val á lista flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Þar er hugsanlega komin skýringin á því hversvegna Andrési þótti grín Jóns á kostnað Eyþórs vera svo fyndið.

Eyþór sagði hinsvegar í gær að ekki væri til hjálpsamlegri maður  en Kjartan og gaf í skyn að hann fengi hlutverk innan flokksins, þrátt fyrir allt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Arnar Þór Jónsson: Lokum stofnunum og segjum upp þeim sem ekki sinna sínu starfi

Arnar Þór Jónsson: Lokum stofnunum og segjum upp þeim sem ekki sinna sínu starfi
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Stjórnarmyndun eftir kosningar: Framsókn mögulega í ríkisstjórn – afdrif Ásmundar gætu gefið tóninn

Stjórnarmyndun eftir kosningar: Framsókn mögulega í ríkisstjórn – afdrif Ásmundar gætu gefið tóninn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka