Meðal helstu breytinga sem nú hafa verið gerðar á úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir námsárið 2018-2019 eru að framfærslugrunnur námsmanna innanlands hækkar og einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar eða hafa dvalarleyfi á Íslandi vegna mannúðarsjónarmiða eiga rétt á námslánum.
Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur samþykkt endanlegar úthlutunarreglur fyrir námsárið 2018-2019 og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest þær:
„Við styrkjum stöðu allra námsmanna með því að hækka framfærslugrunn LÍN, og það eflir íslenskt samfélag að fólk sem dvelst hér hafi tækifæri til að mennta sig,“
segir ráðherra.
Framfærslugrunnur námsmanna innanlands hækkar úr 92% af reiknaðri framfærslu þeirra í 96%. Þannig er ráðgert að ráðstöfunartekjur námsmanna standi aðeins undir 4% af reiknaðri framfærsluþörf þeirra á námstímanum í stað 8% áður.
Einstaklingar sem fengið hafa alþjóðlega vernd hér á landi eða hafa dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eiga nú rétt á námslánum hjá lánasjóðinum séu þeir komnir til landsins og staðfesting Útlendingastofnunar á réttarstöðu þeirra eða dvalarleyfi liggi fyrir.
Sjá nánar:
Úthlutunarreglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir námsárið 2018-2019