Formaður Bjartrar framtíðar, Björt Ólafsdóttir og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Páll Magnússon, leiða saman hesta sína annan hvern sunnudag í nýjum þjóðmálaþætti á útvarpsstöðinni K100 er nefnist Þingvellir. Þar verða pólitík og málefni líðandi stundar í forgrunni, að því er kemur fram í Morgunblaðinu.
„Við erum bæði þekkt fyrir það að vera ekkert að sykurhúða hlutina neitt sérstaklega mikið og fáum náttúrulega rými til þess þarna því við erum ekki fjölmiðlamenn, heldur stjórnmálamenn sem og manneskjur með miklar skoðanir,“
segir Björt í blaðinu.
„Ég held að þetta verði mjög skemmtilegt. Samsetningin er áhugaverð, Björt er formaður í stjórnmálaflokki, ég ekki, ég sit inni á þingi, hún ekki, þannig að við komum að þessari pólitík og samfélagsmálum hvort úr sinni áttinni og auðvitað hvort úr sínum flokknum,“
segir Páll.
Hann bætir síðan við að það skemmtilegasta við þetta allt saman sé einmitt að þau séu svo ósammála um hlutina.
Þau Björt og Páll voru samherjar fyrir ekki alls löngu, meðan flokkar þeirra voru saman í ríkisstjórn. Björt framtíð sleit því samstarfi vegna alvarlegs trúnaðarbrests af hálfu Sjálfstæðisflokksins.
Um stjórnarslitin sagði Páll í janúar á Rás 2:
„Sá flokkur sem olli síðustu stjórnarslitum með gargi og atgangi út af litlu, kjósendur ákváðu að henda honum út af þingi. Ég held að menn séu búnir að fá nóg af þessu gargi. Og þó að mönnum verði á í stjórnsýslu samkvæmt einhverri niðurstöðu Hæstaréttar, að það sé tilefni til afsagnar og menn standi hér alltaf á götuhornum og heimti afsögn, þingrof, nýjar kosningar, út af engu, eða svo gott sem engu[…]þetta er örugglega sú ástæða sem stök er mesta skýringin á þessu vantrausti sem almenningur ber til stjórnmálanna.“
Þá segist Páll á Facebooksíðu sinni ætla að gefa launin sem honum er ætlað fyrir þáttinn, til Hugarafls, óskipt og milliliðalaust:
„Best að svara tveimur spurningum strax til að spara mönnum fyrirhöfnina við að spyrja🙂: 1) Hefur maðurinn ekki nóg að gera með að sinna þeirri vinnu sem hann var kosinn til sem Alþingismaður? Svar: Jú, en þetta er bara klukkutíma þáttur annanhvern sunnudag og verður tekinn af frítímanum. 2) Hefur maðurinn ekki nóg kaup sem þingmaður til að þurfa ekki að vera að snapa sér aðrar tekjur úti í bæ? Svar: Jú. Þess vegna hef ég tilkynnt útvarpsstjóranum að greiðslan sem mér var ætluð fyrir þáttinn eigi að renna óskipt og milliliðalaust til samtakanna Hugarafls.“
Fyrsti þáttur Þingvalla er á sunnudag, páskadag, klukkan 10 á K100.