fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Morgunblaðið efast um slagkraft ESB

Trausti Salvar Kristjánsson
Miðvikudaginn 28. mars 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mynd/DV

Leiðari Morgunblaðsins í dag fjallar um aðild Evrópusambandsins að Skrípal-málinu svokallaða sem stjórnmálaspekingar segja að kveikt hafi neistann í nýju köldu stríði, en fjölmörg Nato ríki og ESB-þjóðir hafa sýnt Bretlandi samstöðu gegn Rússum með því að vísa sendiráðsfulltrúum úr landi.

Yfirskrift leiðarans er „Slagkraftur í ESB?“ en þeir sem kunnugir eru utanríkisstefnu ritstjóra Morgunblaðsins sjá að um háð er að ræða og spurningunni verði auðsvarað.

Skrifari segir „embættismenn í Brussel vilja að meirihluti dugi í utanríkismálum,“ og lýsir síðan annmörkum á fyrirkomulagi Evrópusambandsins til að taka einróma ákvarðanir:

„Samstaða Evrópusambandsins með Bretum í aðgerðum gegn Rússum vegna taugaeitursárásarinnar á njósnarann fyrrverandi Sergej Skripal og Júlíu dóttur hans á Bretlandi kom ýmsum á óvart, einkum og sér í lagi vegna þess að eftir fund utanríkisráðherra sambandsins í Brussel í liðinni viku virtist ESB hálfvolgt í undirtekt sinni. Frakkar og Þjóðverjar höfðu reyndar lýst yfir því að þeir tækju undir mat Breta, en Grikkir voru annarrar hyggju og sögðu að bíða yrði endanlegrar niðurstöðu áður en Rússar yrðu fordæmdir. Í yfirlýsingu, sem gefin var út í kjölfar fundarins, réð afstaða Grikkja því för. Sú regla gildir innan ESB að stefnuyfirlýsingar í utanríkismálum skuli samþykktar einróma. Þetta pirrar æðstu embættismenn ESB sem finnst að þetta leiði til að sambandið skorti slagkraft. Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, er þetta fyrirkomulag þyrnir í augum og í febrúar sagði hann á öryggisráðstefnu, sem árlega er haldin í München, að Evrópa yrði að vera gjaldgeng í heimspólitíkinni. „Hvað eftir annað kemur í ljós að við erum ekki hæf til að taka einróma ákvarðanir,“ sagði hann.“

Þá lýsir skrifari hvaða hugmyndir eru uppi um að styrkja þessar veiku stoðir ESB, sem geti leitt til klofnunar sambandsins:

„Í nýjasta tölublaði Der Spiegel kemur fram að embættismenn framkvæmdastjórnarinnar vinni nú að því að útfæra hugmyndir um það hvernig breyta megi grundvallarreglunni um að sambandið skuli einróma í utanríkismálum. Ýmsu er borið við, þar á meðal að eftir að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna geti ESB ekki lengur treyst á gamla verndarann. Þá þykir auðvelda málið að ekki þurfi að breyta stofngerðum bandalagsins því að í grein 31 í Lissabon-sáttmálanum segi að leyfilegt sé að taka ákvarðanir með einföldum meirihluta fallist aðildarríkin á það. Ekki eru þó allir sammála embættismönnunum. Sósíaldemókratar í Þýskalandi taka undir þessar hugmyndir á þeirri forsendu að þá verði ESB atkvæðameira á alþjóðavettvangi og slíkar raddir má einnig heyra hjá kristilegu flokkunum, en Angela Merkel kanslari hefur sínar efasemdir. Einn háværasti andstæðingurinn er Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar. Hann telur að verði hægt að þvinga fram ákvarðanir með einföldum meirihluta muni það frekar kljúfa sambandið en styrkja það. Hann spyr hvernig eigi að koma í veg fyrir að aðildarríki fari sína leið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna líkt og í desember. Þá sátu sex aðildarríki hjá í atkvæðagreiðslu um ályktun um að fordæma ákvörðun Trumps um að færa bandaríska sendiráðið í Ísrael til Jerúsalem þrátt fyrir að Evrópuráðið í Brussel hefði einróma gagnrýnt ákvörðunina.“

Þá segir skrifari að þar sem í það stefni að Frakkland verði eina ESB ríkið í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, muni það „tæplega“ auka slagkraft þess:

„Áhrif minni ríkja í Evrópusambandinu hafa minnkað jafnt og þétt. Ef ákvörðun er hafnað í þjóðaratkvæði er einfaldlega látið kjósa aftur. Hugmyndin um að samþykkja þurfi ákvarðanir einróma er ekki úr lausu lofti gripin. Hún er sett fram til þess að ríki verði ekki dregin í leiðangra, sem þau hafa engan áhuga á, burtséð frá hvaða skoðun embættismenn hafi á málinu. Þótt embættismennirnir í Brussel séu farnir að leggja á ráðin er þó alls óvíst að þetta skref í átt að Bandaríkjum Evrópu verði stigið. Erfiðleikarnir gætu orðið af ýmsum toga. Það er ankannalegt þegar Evrópusambandið hótar að stefna ríkjum, sem kinoka sér við að lúta fyrirskipunum frá Brussel. Í desember ákvað framkvæmdastjórn ESB að kæra Pólverja, Tékka og Ungverja til Evrópudómstólsins fyrir að taka ekki á móti sínum kvóta af flóttamönnum. Það mál er ein birtingarmynd ágreinings milli nýrra og gamalla aðildarríkja um ýmis mál, allt frá flóttamönnum til lýðræðisspurninga. Der Spiegel bendir síðan á að Frakkar gætu reynst óvæntir bandamenn þeirra, sem vilja stöðva þessi áform. Við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu verði Frakkland eina aðildarríki Evrópusambandsins í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Erfitt sé að gera sér í hugarlund að á vettvangi þess muni Emmanuel Macron forseta fýsa að lúta í einu og öllu forskrift Evrópusambandsins. Þá er full ástæða til að velta fyrir sér hvort og hvers vegna Evrópusambandið þurfi að tala einni röddu um utanríkismál. Oft er vitnað til þess að Henry Kissinger hafi spurt í hvern hann ætti að hringja þegar hann vildi ná sambandi við Evrópu og er það notað til að færa rök að því að Evrópusambandið þurfi að hafa slíkan síma. Kissinger mun þó aldrei hafa látið þessi orð falla og það er spurning hversu mikils virði er að geta gefið út yfirlýsingar ef ekki ríkir eining um innihald þeirra. Það getur tæplega orðið til að auka slagkraft Evrópusambandsins.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka