Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heimsótti í morgun Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) í París. Í heimsókn sinni fundaði hún með Ángel Gurría aðalframkvæmdastjóra áður en hún tók þátt í setningarathöfn Anti-Corruption & Integrity Forum með ávarpi og þátttöku í pallborði. Aðrir þátttakendur voru Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, Gabriela Michetti, Frans Timmermans, Delia Matilde Ferreira Rubio og Gabriela Ramos.
Á fundi forsætisráðherra með aðalframkvæmdastjóranum var farið yfir árangur og áskoranir í efnahagsmálum, þ.á.m. framlegð af ferðaþjónustu, samkeppnishæfni atvinnulífsins, afnám gjaldeyrishafta, PISA og aðrar áætlanir á sviði menntamála.
Árangur Íslands á sviði jafnréttismála og framlag til umbóta á alþjóðavettvangi var einnig til umræðu og ákveðið að Ísland skipuleggi rakarastofuráðstefnu í OECD í haust.
Á ráðstefnunni talaði forsætisráðherra um heilindi í stjórnmálum, stjórnsýslu og atvinnulífinu og áskoranir á því sviði.