Laun útvarpsstjóra, Magnúsar Geirs Þórðarsonar, hækkuðu umtalsvert á síðasta ári. Heildarlaun hans voru 22.9 milljónir, en greiðslur til hans hækkuðu um 5.7 milljónir,eða 33 prósent. Magnús var því með 1.9 milljónir á mánuði að meðaltali, samkvæmt ársreikningi RÚV.
Þess ber að geta að Magnús Geir tók fæðingarorlof árið 2016 sem lækkaði laun hans í heild á því ári og því gefur samanburður milli áranna 2016-2017 ekki rétta mynd af launaþróun. Árið 2017 ákvað stjórn RÚV að hækka laun Magnúsar um 16 prósent, úr 1.550 þúsund krónum á mánuði í 1.800 þúsund krónur.
Lögum um kjararáð var breytt árið 2016 þar sem fjölmargir forstjórar fyrirtækja í opinberri eigu færðust undan launaákvörðunum kjararáðs. Magnús Geir er einn þeirra. Þrátt fyrir tilmæli fjármála- og efnahagsráðuneytisins bréfleiðis til stjórna fyrirtækja í ríkiseigu og Bankasýslu ríkisins fyrir rúmu ári síðan, um að stilla launahækkunum forstjóra í hóf, með því augnamiði að standa vörð um stöðugleika á vinnumarkaði, hefur það ekki gengið eftir.
Líkt og Kjarninn bendir á, hafa fjölmargir forstjórar fyrirtækja í ríkiseigu, sem heyra þó ekki undir kjararáð, hækkað umtalsvert í launum. Má þar nefna Hörð Arnarson hjá Landsvirkjun, sem hækkaði úr 2 milljónum á mánuði í 2.7 milljónir.
Þá fékk Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts hækkun upp á 17.6 prósent á síðasta ári og er nú með 1.7 milljónir á mánuði.
Forstjóri Landsnets, Guðmundur Ingi Ásmundsson, fékk um 10 prósenta hækkun á síðasta ári og er með 1.8 milljónir á mánuði.
Ýmis önnur fyrirtæki eiga eftir að skila ársreikningum, til dæmis Isavia, Rarik og Matís.