Gistinætur á hótelum í janúar síðastliðnum voru 285.200, sem er 1% samdráttur frá sama mánuði árið áður. Um 72% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 204.300. Gistinóttum á Norðurlandi fjölgaði um 60% frá janúar fyrra árs. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Um 91% gistinátta voru skráðar á erlenda ferðamenn, en erlendum gistinóttum fækkaði um 1% frá janúar í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fækkaði um 8%. Bretar gistu flestar nætur (88.400), síðan Bandaríkjamenn (66.800) og Kínverjar (18.700) , en gistinætur Íslendinga voru 26.300.
Á tólf mánaða tímabili, frá febrúar 2017 til janúar 2018, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.266.300 sem er 8% aukning miðað við sama tímabil árið áður.
57% nýting herbergja á hótelum í janúar
Herbergjanýting í janúar 2018 var 57,0%, sem er lækkun um 5,2 prósentustig frá janúar 2017 þegar hún var 62,2%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 8,3% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í janúar var best á höfuðborgarsvæðinu, eða 74,8%.
Áætlun á heildarfjölda gistinátta fyrir allar tegundir gististaða í janúar
Hagstofan áætlar að heildarfjöldi gistinátta á öllum tegundum gististaða hafi í janúar verið um 455.200. Af þeim gistinóttum, sem eru áætlaðar af gististöðum skráðum í gistináttagrunn Hagstofunnar, má ætla að gistinætur erlendra gesta hafi verið um 406.400 og gistinætur Íslendinga um 48.800. Auk hótela og gistiheimila er um að ræða gististaði, s.s. farfuglaheimili, orlofshús, svefnpokagististaði, íbúða- og heimagistingu auk tjaldsvæða og skála í óbyggðum. Gistirými skráð á Airbnb og aðrar sambærilegar vefsíður eru yfirleitt ekki með í talningu Hagstofunnar þar sem upplýsingum um leigusala er ábótavant. Stærri gististaðir sem skráðir eru á þessar síður eru þó yfirleitt með í gögnunum. Verið er að undirbúa mánaðarlega birtingu á áætluðum fjölda gistinátta sem greitt er fyrir gegnum AirBnB og áætlað er að þær tölur verði komnar í gistináttatölfræði Hagstofunnar fyrir apríl 2018.
Tölurnar eru ekki endanlegar þar sem ekki hefur verið gengið frá mati á gistinóttum fyrir aðrar tegundir gististaða en hótel. Gert er ráð fyrir að þær verði uppfærðar í birtingu um gistinætur ársins 2017 í mars 2018.
Gistinætur á hótelum | ||||||
Janúar | Febrúar–janúar | |||||
2017 | 2018 | % | 2017 | 2018 | % | |
Alls | 288.745 | 285.249 | -1 | 3.956.988 | 4.266.289 | 8 |
Höfuðborgarsvæði | 211.595 | 204.265 | -3 | 2.499.510 | 2.591.331 | 4 |
Suðurnes | 19.889 | 18.423 | -7 | 218.280 | 299.544 | 37 |
Vesturland og Vestfirðir | 6.311 | 6.677 | 6 | 175.674 | 190.455 | 8 |
Norðurland | 6.562 | 10.496 | 60 | 284.441 | 301.543 | 6 |
Austurland | 1.555 | 1.541 | -1 | 108.539 | 108.323 | 0 |
Suðurland | 42.833 | 43.847 | 2 | 670.544 | 775.093 | 16 |
Íslendingar | 28.469 | 26.277 | -8 | 406.207 | 426.033 | 5 |
Erlendir gestir | 260.276 | 258.972 | -1 | 3.550.781 | 3.840.256 | 8 |
Eins og fram kemur í lýsigögnum um fjölda gististaða, gesta og gistinátta á vef Hagstofu Íslands tekur söfnun Hagstofunnar til allrar seldrar gistiþjónustu, að orlofshúsum félagasamtaka undanskildum. Tölfræðin er unnin eftir forskrift í reglugerð Evrópusambandsins nr.692/2011 um ferðaþjónustu. Að gefnu tilefni er bent á að gisting sem veitt er án þess að greiðsla fyrir hana sé innt af hendi, s.s. hjá vinum, ættingjum eða í tengslum við íbúðaskipti, „sófagesti“ og gistingu í húsbílum og tjöldum utan greiðsluskyldra tjaldsvæða fellur utan ramma gistináttatölfræði Hagstofunnar.
Tölur fyrir 2017 og 2018 eru bráðabirgðatölur. Um þessar mundir fer fram vinna við endurskoðun á skiptingu gistinátta eftir þjóðerni ferðamanna. Þessi vinna hefur ekki áhrif á heildarfjölda gistinátta en gæti haft áhrif á hlutfall milli erlendra og innlendra ferðamanna. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu fyrir útgáfu endanlegra talna fyrir gistinætur á öllum tegundum gististaða fyrir árið 2017.