Samkvæmt könnun Maskínu sem unnin var í samstarfi við Stundina, kemur fram að 72,5% þjóðarinnar vilja að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segi af sér. Þeir sem vilja að hún sitji áfram eru 27,5 prósent. Hlutfallið er yfir 67% hjá fylgjendum allra stjórnmálaflokka, nema Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins, en 23% Sjálfstæðismanna vilja afsögn Sigríðar og rúm 44 prósent Miðsflokksmanna.
Spurt var:
Finnst þér að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra eigi að segja af sér ráðherradómi eða á hún að sitja áfram sem dómsmálaráðherra?
Það er eftirtektarvert að þeir sem styðja Miðflokkinn eru líklegri til að vilja Sigríði áfram sem ráðherra, heldur en stuðningsmenn Framsóknarflokksins, sem þó situr með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn. Athygli vekur að ekkert af því Samfylkingarfólki sem spurt var, vill að Sigríður sitji áfram, sem verður að teljast tölfræðilegt afrek út af fyrir sig.
Þá kemur yfirgnæfandi meirihluti fólks í VG sem vilja Sigríði burt ekki mikið á óvart, eða 92,4 prósent, en þingflokkurinn hefur lítið viljað segja um hvort Sigríður eigi að segja af sér, það sé hennar og Sjálfstæðisflokksins að ákveða.
Þá er Viðreisnarfólk mjög eindregið í afstöðu sinni með afsögn, eða 89,2 prósent, en flokkurinn sat í ríkisstjórn með Sigríði og Sjálfstæðisflokknum í fyrra þegar landsréttarmálið hófst og uppreist æru málið svokallaða kom fram í dagsljósið, sem að lokum leiddi til þess að ríkisstjórnin liðaðist í sundur.
Þegar horft er til launakjara svarenda er hlutfall þeirra sem vilja afsögn nokkuð jafnt í öllum launaflokkum, nema þegar kemur að þeim tekjuhæstu. En 64% þeirra sem eru með yfir 1.2 milljónir á mánuði vilja afsögn Sigríðar, en lægri launaflokkar mælast í 70-78 prósentum, fylgjandi afsögn.
Þá eru konur líklegri til að vilja afsögn ráðherrans, eða 76,9 prósent kvenna, móti 68,3 prósentum karla.
Þá er fólk á aldrinum 30-39 ára líklegast til að vilja afsögn, eða 78,1 prósent þess.
Fólk sem er 60 ára og eldri er líklegast til að vilja Sigríði áfram sem ráðherra, eða 34,1 prósent, en 65,9 prósent þeirra vilja þó afsögn.
Svör eftir stuðningi við stjórnmálaflokka:
Flokkur | Víki % | Sitji áfram % |
Sjálfstæðisflokkurinn | 23 | 77 |
Vinstri grænir | 92,4 | 7,6 |
Framsóknarflokkur | 67,3 | 32,7 |
Miðflokkurinn | 44,2 | 55,8 |
Píratar | 98,8 | 1,2 |
Samfylking | 100 | 0 |
Flokkur fólksins | 71,6 | 28,4 |
Viðreisn | 89,2 | 10,8 |
Hér má sjá nánari greiningu á svörum könnunar Maskínu fyrir Stundina.
Svarendur voru 858 talsins og 88,7% þeirra tóku afstöðu tilspurningarinnar. Svarendur koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 15.- 20. febrúar 2018.