Börkur Gunnarsson, listamaður og fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tætir í sig verkefni vinstri meirihlutans í borginni um styttingu vinnuvikunnar í Morgunblaðinu í dag. Verkefnið sem innleitt var hjá hluta af starfsmönnum borgarinnar, um styttri vinnuviku fyrir sömu laun, kallar Börkur hina nýju leiðréttingu, með vísun í þegar Framsóknarflokkurinn undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, lofaði afmörkuðum hópi fólks háa eingreiðslu gegn atkvæði þess:
„Leiðréttingin var kosningamál sem Framsóknarflokkurinn vann glæstan sigur á í kosningunum árið 2013. Að leiðrétta verðtryggð húsnæð- islán leiddi til þónokkurrar eignatilfærslu í samfélaginu. Ég tók þátt í þeim kosningum og það var ótrúleg upplifun að ræða við fólk sem var að færa atkvæði sitt til Framsóknarflokksins. Það var sammála því að fyrir heildarmyndina væri þetta kannski ekki góð hugmynd, en fólkið var búið að reikna út að það fengi ansi margar milljónir í vasann ef Framsóknarflokkurinn kæmist til valda. Það var að þræla sér út á hverjum degi fyrir nokkrar krónur og tilhugsunin um að fá brúnt umslag með milljónum bara við það að græni flokkurinn kæmist að, hún var of freistandi.“
Börkur segir að aðeins þurfi að spyrja þá sem farið hafa út í eigin rekstur, sem útheimti mikinn tíma, hvort stytting vinnuvikunnar hefði skilað þeim betri árangri:
„Stytting vinnuvikunnar er nýja leiðréttingardæmið í dag. Spyrðu hvaða manneskju sem er, sem hefur lagt það á sig að starta fyrirtæki og skapa verðmæti fyrir samfélagið hvort hún teldi að það hefði verið betra ef hún hefði ekki unnið myrkranna á milli þegar hún var að skapa verðmætin og koma fyrirtækinu á fót, hvort það hefði hugsanlega verið betra að stytta vinnudaginn hjá sér, vinna bara 6-8 tíma á dag, og þannig hefði allt gengið betur? Uuuuu … svarið er alltaf nei, 99% nei svörun.“
Börkur útskýrir að ef slík stytting leiðir til aukinnar framleiðni, þýði það einfaldlega að viðkomandi hafi ekki unnið „af viti“ fram að þessu. Það sé hinsvegar skiljanlegt að fólk freistist til að þiggja falda launahækkun sem þessa:
„Ef stytting vinnuvikunnar er að auka framleiðni á einhverjum stöðum að þá þýðir það bara að fólkið hefur ekki verið að vinna af viti fram að þessu. En það er gjörsamlega ómögulegt að ræða við borgarstarfsmenn um þetta. Því þótt þeir séu sammála um að þetta sé kannski ekki gott fyrir heildarmyndina eru þeir að fá peninga beint í vasann sinn og fá meiri tíma til að sinna sínum nánustu. Hver vill ekki fá launahækkun, sérstaklega ef hún er svona vel falin? Auðvitað skil ég þá stjórnmálaflokka sem leggja áherslu á þetta mál því atkvæði borgarstarfsmanna eru mörg þúsund og ráða úrslitum. Út á svona pælingar vann Framsóknarflokkurinn árið 2013. Það er hægt að skilja þá stjórnmálamenn sem vilja hækka laun mörg þúsund manna fyrir kosningar og hægt að skilja þá sem vilja þiggja launahækkunina, en maður þarf ekki að vera sammála því að það sé nokkurt vit í þessu.“