Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, hvetur Alþingi til að samþykkja frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, sem bannar umskurð drengja, í umsögn sinni um frumvarpið.
„Þar sem um er að ræða alvarlegt og óafturkræft inngrip er óásættanlegt að börn undir lögaldri séu umskorin,“
segir meðal annars í umsögninni.
Siðmennt segir að brotið sé á réttindum ungra drengja með umskurði, nema slík aðgerð sé talin nauðsynleg af heilsufarslegum ástæðum. Þá segir einnig að réttur barns sé trú og siðum yfirsterkari og að þó svo ýmsar siðavenjur hafi verið stundaðar í árþúsund, sé það ekki réttlæting á að þær standi óhreyfðar um alla eilífð.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sagði í sinni umsögn að frumvarpið geri Gyðingdóminn og Islam að glæpsamlegum trúarbrögðum og þeir einstaklingar sem þau aðhyllast verði bannaðir hér á landi, eða óvelkomnir. Slíkar öfgar beri að forðast.