Miðflokkurinn mun bjóða fram til bæjarstjórnar í Garðabæ í sveitarstjórnarkosningum vorið 2018 og mun María Grétarsdóttir leiða listann, samkvæmt tilkynningu. Hún hefur setið sem fulltrúi M-lista, lista FÓLKSINS í bænum, frá 1013.
María er fædd 1964 og er viðskiptafræðingur að mennt með meistarapróf í stjórnun og stefnumótun.
Miðflokknum er mikill styrkur af því að fá Maríu til liðs við sig en hún er gjörkunnug bæjarstjórnarmálum og hefur starfað sem bæjarfulltrúi í Garðabæ á kjörtímabilinu sem er að líða og sem varabæjarfulltrúi árin 1998-2006. Á starfstíma sínum hefur María m.a. verið formaður fjölskylduráðs og barnaverndarnefndar Garðabæjar og formaður leikskólanefndar bæjarins auk þess að eiga sæti í íþrótta- og tómstundaráði Garðabæjar.
Undirbúningur Miðflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 er nú í fullum gangi og þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í að móta samfélagið í Garðabæ á næsta kjörtímabili er bent á að senda má framboðstilkynningar eða fyrirspurnir á póstfangið gardabaer@midflokkurinn.is.
Tekið er á móti óskum um framboð til miðnættis þann 26. febrúar og í þeim skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram: Nafn, heimilisfang, starfsheiti, símanúmer, netfang og það sæti sem óskað er eftir.
Listi Miðflokksins í Garðabæ verður kynntur fyrir 15. mars n.k.