Landsvirkjun og hátæknifyrirtækið Advania Data Centers hafa undirritað rafmagnssamning um afhendingu á 30 MW til gagnaversins á Fitjum í Reykjanesbæ. Unnið er að mikilli stækkun gagnaversins og er ráðgert að umsvif Advania Data Centers þrefaldist. Starfsmenn gagnaveranna verða um 50 talsins og áætluð velta á árinu er um sex milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Samningurinn gerir Advania Data Centers kleift að mæta sívaxandi eftirspurn eftir ofurtölvuafli og sérfræðiþjónustu í blockchain-tækni.
Endurnýjanleg orka og íslenskt veðurfar eiga þátt í að skapa hagstæðar aðstæður í gagnaverinu á Fitjum. Meðal þess sem laðar erlenda viðskiptavini til Advania Data Centers er að gagnaverið nýtir kalda loftið til að kæla tækjabúnað sem hitnar gríðarlega við notkun. Loftkælingin kemur í veg fyrir að eyða þurfi mikilli orku í að kæla búnaðinn og því er hagkvæmara að knýja hann á Íslandi en víða annars staðar í heiminum.
Orkan sem samningurinn nær til verður afhent úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar, sem rekur 14 vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur. Þá stendur yfir stækkun Búrfellsvirkjunar sem áætlað er að gangsetja í sumar.
„Samstarfið við Advania Data Centers hefur gengið vel og það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með góðum árangri fyrirtækisins. Í leiðinni hefur orðið til ný og framsækin atvinnugrein á Íslandi, sem greiðir samkeppnishæft verð fyrir orkuna. Á Íslandi eru kjöraðstæður fyrir rekstur gagnavera og með sölu á rafmagni úr endurnýjanlegum orkugjöfum til þeirra getur Landsvirkjun rennt fleiri stoðum undir sinn eigin rekstur og um leið stutt við frekari vöxt upplýsingatækniiðnaðarins á Íslandi.“
segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers, segir að orkusparnaði sé náð með samningunum:
„Við höfum á undanförnum árum fjárfest verulega í þekkingu og tæknilegri getu sem hefur markað fyrirtækinu sterka stöðu í harðri alþjóðlegri samkeppni. Viðskiptavinir okkar sjá ávinninginn af orkusparnaðinum sem kemur til með náttúrulegri loftkælingu á tölvubúnaði í gagnaverinu. Gott samstarf við Landsvirkjun er ein af forsendum þess að Advania Data Centers vaxi og dafni til framtíðar. Það er því ánægjulegt að nýr samningur sé í höfn og við getum svarað kalli eftir aukinni þjónustu.“
Um Advania Data Centers og Landsvirkjun:
Advania Data Centers er hátæknifyritæki á sviði ofurtölva, blockchain-tækni og tölvubúnaðar sem hannaður er til að hámarka reiknigetu. Hjá fyrirtækinu starfa sérfræðingar í rekstri ofurtölva sem þjónusta viðskiptavini um allan heim í tækni og vísindum.
Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar sem vinnur rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnsafli, jarðvarma og vindi. Hagstæðir og öruggir langtíma raforkusamningar gera Ísland að samkeppnishæfu umhverfi fyrir gagnaver og að auki hentar kalt loftslag landsins vel fyrir rekstur gagnavera. Þá fullnægja fjarskiptatengingar til landsins kröfum um stöðugleika og flutningsgetu. Sjá nánar: www.landsvirkjun.com/datacenters