fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Enginn kynbundinn launamunur hjá Kópavogsbæ

Trausti Salvar Kristjánsson
Miðvikudaginn 7. febrúar 2018 12:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Launamunur kynja hjá Kópavogsbæ er enginn þegar bornir eru saman einstaklingar í sambærilegum störfum, á sama aldri, með sömu starfsreynslu og færni.

 Þetta kemur fram í nýrri launarannsókn sem Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) vann fyrir Kópavogsbæ og kynnt var í morgun á fundi jafnréttis- og mannréttindaráðs.

 Rannsóknin var unnin upp úr launabókhaldi Kópavogsbæjar á mánaðartímabili, unnið var með launagögn allra starfsmanna í yfir 40% starfshlutfalli, alls 1.891 starfsmanna sem eru 80% allra starfsmanna Kópavogsbæjar.

Niðurstaðan er sú að þegar leiðrétt hefur verið fyrir áhrifaþáttum á laun; aldri, starfsaldri, menntun, sviði og vinnutíma er ekki marktækur munur á launum kynja. Síðast þegar sambærileg rannsókn var gerð var kynbundinn launamunur 3,25% körlum í vil.

„Kópavogsbær hefur unnið markvisst að því að útrýma launamun milli karla og kvenna og er það skýr stefna að greiða konum og körlum sömu laun fyrir sambærileg störf, í ljósi þess er niðurstaðan mjög gleðileg fyrir sveitarfélagið,“

segir Ragnheiður Bóasdóttir formaður jafnréttis- og mannréttindaráðs.

Konur eru í miklum meirihluta starfsmanna Kópavogsbæjar, eða um 80%. Kynin dreifast ekki jafnt hvorki eftir sviðum né starfi. Hlutfallslega fleiri karlar hjá Kópavogsbæ vinna í tekjuhæstu starfsgreinunum og karlar vinna að meðaltali fleiri yfirvinnutíma en konur sem hefur áhrif á heildarlaun þeirra. Meðallaun karla eru 18% hærri en meðallaun kvenna, áður en tekið er tillit til áhrifaþátta sem áður hefur verið getið um.

 Framkvæmd könnunar á launum starfsmanna er liður í framkvæmdaáætlun Kópavogsbæjar í jafnréttis- og mannréttindamálum.  Sambærileg könnun var kynnt árið 2014 og þá var 3,25% launamunur milli kynja, eldri könnun er frá 2003 sem mældi 4,7% launamun milli kynja.

 Í bókun jafnréttis- og mannréttindaráðs segir meðal annars: „Jafnréttis- og mannréttindaráð fagnar því að kynbundnum launamun meðal starfsfólks hafi verið eytt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Umpólun Snorra?
Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?