fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Óli Björn segir sérfræðinga geta stuðlað að færibandalöggjöf á Alþingi

Trausti Salvar Kristjánsson
Miðvikudaginn 7. febrúar 2018 11:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óli Björn Kárason. Mynd/DV.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vitnar í orð Eysteins Jónssonar fyrrum formanns Framsóknarflokksins, í grein í Morgunblaðinu í dag. Yfirskrift greinarinnar er „Látum sérfræðingana bara um þetta!“

„Í flóknu þjóðfélagi nútímans koma til önnur öfl í sjálfu stjórnkerfinu en Alþingi sem látlaust láta meira að sér kveða. Það er embættis- og sérfræðingakerfið m.a., sem ráðherrar eru daglega hnýttir við vegna starfa sinna. Ég álít, að það sé veruleg hætta á því að Alþingi tapi löggjafarvaldinu yfir til ríkisstjórnar og embættis- og sérfræðingavaldsins. -/- Alþingi gæti í reynd orðið lítið annað en kjörmannasamkoma til þess að velja ríkisstjórn, og eins konar færiband fyrir löggjöf sem nálega að öllu leyti væri mótuð af ríkisstjórn og þó að verulegu leyti embættis- og sérfræðingakerfinu. Og það er ekkert í sjálfri stjórnarskránni eða í lögunum sem dugar til þess að hindra að svo illa gæti farið.“

Eysteinn sagði þessi fleygu orð árið 1968 og segir Óli Björn þau eiga vel við í dag:

„Tæp hálf öld er frá því að Eysteinn varaði við að Alþingi yrði aðeins „færiband fyrir löggjöf“ sem að verulegu leyti væri mótuð af embættis- og sérfræðingakerfinu. Því miður væri hægt að flytja svipaða ræðu í dag og taka dýpra í árinni en Eysteinn gerði.“

 

Þá vitnar Óli í orð kollega síns, Brynjars Níelssonar, sem skrifaði á Facebook:

„Ég minnist margra góðra „sérfræðinga“ sem voru sérstaklega áberandi í tíð Jóhönnustjórnarinnar. Þeir sögðu ráðherrum í þeirri stjórn að þjóðin yrði að greiða Icesave-skuldina. Ekki bara að það væri laga- og siðferðisskylda heldur yrðum við fátækasta þjóð í heimi ef skuldin yrði ekki greidd. Sömu „sérfræðingum“ fannst alger lögleysa að láta slitabúin og vogunarsjóðina sæta einhverjum takmörkunum og greiða skatta. Svona mætti lengi telja.“

 

Þá segir Óli að slík sérfræðingavæðing sé þegar hafin og vitnar í ritgerð Friðgeirs Björnssonar, fyrrverandi dómsstjóra:

„Á síðustu áratugum hefur verið komið á fót ýmsum úrskurðarnefndum, sem starfa undir ýmsum nöfnum s.s. kærunefndir, málskotsnefndir, áfrýjunarnefndir og matsnefndir. Í ritgerð Friðgeirs Björnssonar, fyrrverandi dómstjóra, og forsætisráðuneytið gaf út árið 2005, kemur fram að „mjög hefur færst í vöxt að löggjafinn komi á fót úrskurðarnefndum í stjórnsýslunni og úrskurðarvald á ákveðnum sviðum hennar því ekki fengið ráð- herrum eða úrskurðarvald sem þeir áður höfðu frá þeim tekið.“

Þá nefnir Óli að nefndirnar hafi verið 46 árið 2012 og þó sumar þeirra þjóni góðum tilgangi, sé löggjafinn og ráðherrar að afsala sér áhrifum og völdum án ábyrgðar. Að lokum varar hann við færibandaafgreiðslu á Alþingi:

„Umræða um kosti og galla þess að „framselja“ vald til úrskurð- arnefnda er ekki fyrirferðarmikil, en mér er til efs að Eysteini Jónssyni hefði hugnast sú mikla fjölgun sem orðið hefur. Og eitt er ljóst: Eftir því sem valdsvið úrskurðarnefnda eykst og þeim fjölgar, því fjarlægari verður sú hugmynd að valdið sé sótt til almennings og að kjörnir fulltrúar séu umboðsmenn kjósenda. Gegn þessari hugmynd standa því miður of margir sérfræðingar og fræðimenn. Jafnvel í þingsal hefur sú hugsun náð að festa rætur að best sé að láta sérfræðingana um þetta flest. Alþingi afgreiðir síðan málin á færibandi.“

Grein Óla er augljós ádeila á styrinn sem stendur um Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra vegna Landsréttarmálsins, en rök þeirra sem vilja hana burt úr stóli sínum snúast að miklu leyti um þá staðreynd, að Sigríður hafi ekki hlustað á ráðleggingar sérfræðinga. Sjálfstæðismenn hafa bent á, að síðast þegar Sigríður hlustaði ekki á slíkar ráðleggingar, er hún fékk minnisblað frá sérfræðingum í dómsmálaráðuneytinu þar sem lagt var til að barnaníðingi yrði veitt uppreist æra, en hún neitaði, virtist það ekki valda slíku hugarangri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?