fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Eyjan

Öryrkjabandalagið um Reykjavíkurborg: „Framkoma sem minnir á vogunarsjóði“

Trausti Salvar Kristjánsson
Mánudaginn 5. febrúar 2018 15:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ

Reykjavíkurborg dregur lappirnar í að fylgja skýrum fyrirmælum Hæstaréttar um sérstakar húsaleigubætur. Kallað er eftir því að borgin hætti lagatæknilegum útúrsnúningum annars kunni að þurfa að höfða nýtt dómsmál til að ná fram réttlæti fyrir umbjóðendur ÖBÍ. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Öryrkjabandalagi Íslands:

Hæstiréttur dæmdi fyrir einu og hálfu ári að borginni bæri að greiða sérstakar húsaleigubætur til leigjenda hjá Brynju hússjóði í Reykjavík, eftir sömu reglum og giltu um aðra leigutaka. Í fjölmörg ár hafnaði borgin öllum umsóknum um slíkar bætur á þeim grunni að leigutakar hjá Brynju ættu aldrei rétt á sérstökum húsaleigubótum. Þetta taldi héraðsdómur ekki standast stjórnsýslulög og tók Hæstiréttur undir þá niðurstöðu. Málið á sér margra ára forsögu en allt frá árinu 2009 hefur ÖBÍ gert athugasemdir við þessa afgreiðslu borgarninar. Eftir að niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir hefur borgin neitað að bæta fyrir stóran hluta þeirra réttindi sem skjólstæðingar ÖBÍ voru hlunnfarnir um. Borgin hefur borið fyrir sig fyrningu og formsatriði.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, bendir á það í bréfi sem sent var borgarstjóra á dögunum, að það geti seint talist réttlát niðurstaða að „borgarstjórn sem brýtur lög, hagnist á því á kostnað brotaþola sem í þessu tilfelli eru öryrkjar sem búa margir við afar slæm kjör“. Afgreiðslan minni á afgreiðslu ákveðinna fjármálafyrirtækja sem starfað hafi í skjóli vogunarsjóða eftir hrun og engar siðferðislegar skyldur haft gagnvart viðskiptamönnum sínum „frekar en borgarstjórn sem kennir sig við velferð“.

Í bréfinu er vísað til fyrri samskipta við borgarstjóra. Þar á meðal um að borgin telji einungis þá sem sannanlega hafi sótt um þessar bætur geti átt rétt á þeim frá þeim tíma sem sótt var um. Þessu hafni ÖBÍ. „Enda þekkjum við mörg dæmi þess að umbjóðendum bandalagsins hafi verið snúið við af starfsfólki borgarinnar þegar þeir hafi reynt að sækja skriflega um sérstakar húsnæðisbætur. Þá var það opinber stefna borgarinnar allt fram að dómi hæstaréttar í júní 2016 að leigjendur hjá Brynju hússjóði ættu ekki rétt á sérstökum húsaleigubótum. Af því leiddi bæði að starfsfólk borgarinnar ráðlagði umbjóðendum okkar frá því að sækja um bæturnar auk þess sem fólk sækir almennt ekki um það sem það veit að því verður synjað um,“ segir meðal annars í bréfinu.

Þuríður Harpa biðlar til borgarstjórnar um að láta af lagatæknilegum útúrsnúningum í þessu máli. Öryrkjabandalagið hafi barist fyrir umbjóðendur sína í átta ár og talið að málinu hefði átt að ljúka með dómi Hæstaréttar. Mögulega verði að höfða annað dómsmál til að fá endanlega lausn í málið.

 

Dómar Hæstaréttar og héraðsdóms Reykjavíkur.

Bréf formanns ÖBÍ til borgarstjóra má finna hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?