Ný könnun Maskínu og Stundarinnar leiðir í ljós að rúmlega 55% þjóðarinnar vilja aðskilnað ríkis og kirkju, en 22% eru honum mótfallnir. Um 23% eru í meðallagi hlynntir, eða andvígir. Frá þessu greinir á vef Stundarinnar.
Fólk á aldrinum 18-29 ára er mun líklegra til að vilja aðskilnað, eða 75%. Aðeins 8,6% fólks á þessum aldri vill ekki aðskilnað.
Í hópi 60 ára og eldri vilja 40% aðskilnað en 34,8% eru andvígir.
Þegar horft er til búsetu, eru 64,4% höfuðborgarbúa hlynntir aðskilnaði. Nágrannasveitafélög Reykjavíkur eru nokkuð hlynnt, eða 52,9 prósent. Á Suðurlandi og Reykjanesi eru 46,9% íbúa hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju.
Á Norðurlandi eru 37.5% hlynntir aðskilnaði. Á Vesturlandi og Vestfjörðum er hlutfallið 56,5% íbúa sem hlynntir eru aðskilnaði og á Austurlandi eru 47,8% hlynntir.
Þegar flokkað er eftir stjórnmálaskoðunum kemur í ljós að 89% Pírata eru hlynntir aðskilnaði og aðeins um 6% andvígir.
Dæmið snýst við hjá Miðflokknum, aðeins 19,4% eru hlynntir aðskilnaði en 39,5% eru andvígir.
Hjá Vinstri grænum vilja 75,5% aðskilnað ríkis og kirkju.
Kjósendur Viðreisnar eru í 70,1 prósenti, fylgjandi aðskilnaði.
Af Samfylkingarfólki vill 62,3% aðskilnað.
Samtals 23,7% stuðningsmanna Flokks fólksins vilja aðskilnað ríkis og kirkju.
Hjá kjósendum Framsóknarflokksins vilja 26,3% aðskilnað.
Þá vilja 37,4% kjósenda Sjálfstæðisflokksins aðskilnað ríkis og kirkju.
Síðast spurði Maskína um afstöðu fólks til aðskilnaðar ríkis og kirkju árið 2015 en þá sögðust 49% landsmanna hlynntir aðskilnaði. Segir í frétt Stundarinnar, að það sé ekki marktæk breyting frá ofangreindri könnun.