Staksteinahöfundur Morgunblaðsins í dag finnur RÚV flest til foráttu. Rifjar hann upp orð Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingar á dögunum, í athugasemd við orð Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um fjölmiðlaskýrsluna:
„Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, taldi „þrjá fjölmiðla“ langbesta á Íslandi. Þetta kom fram í athugasemd við orð Óla Björns Kárasonar alþingismanns. Helgu Völu þótti Óli Björn ekki tala af nægjanlegri aðdáun um „RÚV“: „…okkar sameiginlegu menningarstofnun, þessa ævagömlu stofnun sem nýtur algerrar sérstöðu í framleiðslu upplýsinga og menningarefnis hér á landi, að maður gapir bara.“ Svo nefndi hún „fjölmiðlana þrjá“: „RÚV Sjónvarp, Rás 1 og Rás 2, innir af hendi hvern dag árið um kring. Það er enginn fjölmiðill á pari við þá þrjá fjölmiðla þegar kemur að upplýsinga- og menningarhlutverki.“
Staksteinar taka fram að sumir af vinstri kantinum tali af „trúarhita og með tilburðum“ til að þagga niður gagnrýni á RÚV. Höfundur viðurkennir að vísu að RÚV hafi flutt og geymt margvíslegt stórgott menningarefni, sem illt væri ef týndist. En í næstu setningu telur hann að aðrir fjölmiðlar væru einnig færir um slíkt, fengu þeir þá fjóra milljarða sem „mokað“ er í ríkisstofnunina, án þess að hún uppfylli forsenduna um rekstur hennar, hlutleysið.
Höfundur Staksteina ber einnig saman RÚV og Morgunblaðið:
„Fjölmiðill, eins og hið 104 ára Morgunblað (mun eldra en hin „ævagamla stofnun“) hefur birt ógrynni menningarefnis og varð- veitir það og það gera fleiri. Þegar flett er bókum um sögulegt efni sem nær yfir síðustu 104 árin sést að í þeim er oftar vitnað í Morgunblaðið en nokkurn annan miðil. Sjaldan er vitnað í „RÚV.“
Þess má til gamans geta að fyrr á tímum voru öll flokksblöðin á ríkisstyrkjum, Morgunblaðið þar með talið. Sveinn R. Eyjólfsson, sem byggði upp Vísi og síðar DV, var hinsvegar sá fyrsti til að afþakka þann ríkisstyrk er hann tók við Vísi á sjöunda áratugnum. Það þótti fáheyrt á þeim tíma.