Miðflokkurinn leitar nú að frambærilegum frambjóðendum til sveitastjórnarkosninga og hafa ýmis nöfn verið nefnd til sögunnar líkt og venja er. Einn þeirra sem nefndur hefur verið er Frosti Logason, útvarpsmaður á X-inu og annar umsjónarmanna Harmageddon.
Frosti staðfesti við Eyjuna að hann hefði heyrt þennan orðróm, væri nýbúinn að tala við blaðamann Vísis um sama málefni, en neitaði því að Miðflokkurinn hefði nálgast hann:
„Það hefur enginn komið að máli við mig og ég myndi heldur ekki ansa slíku, það er enginn áhugi hjá mér um þetta. Né hefur nokkur úr öðrum flokki nálgast mig varðandi framboð,“
sagði Frosti.
Annar Frosti hefur einnig verið orðaður við Miðflokkinn, Frosti Sigurjónsson, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins. Sá orðrómur hefur þó ekki fengið mikinn byr.
Miðflokkurinn fundar nú ótt og títt, vítt og breytt og leitar dyrum og dyngjum að verðugum frambjóðendum. Hefur nafn sjálfs formannsins heyrst í umræðunni, en sjálfur hefur Sigmundur Davíð ekkert gefið út varðandi framboð til borgarstjórnar.