fbpx
Föstudagur 29.nóvember 2024
Eyjan

Helstið úr fjölmiðlaskýrslunni: RÚV af auglýsingamarkaði, áfengis og tóbaksauglýsingar leyfðar, bætt skattaumhverfi og endurgreiðsla kostnaðar

Trausti Salvar Kristjánsson
Fimmtudaginn 25. janúar 2018 10:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hefur lokið störfum og afhenti skýrslu sína í dag. Í skýrslunni er ítarleg umfjöllun um stöðu fjölmiðla bæði hér á landi og erlendis og útskýrt að rekstrarerfiðleika megi helst rekja til breyttra forsendna til tekjuöflunar. Nefndin gerir tillögur um aðgerðir í sjö liðum sem gætu bætt rekstrarskilyrði fjölmiðla. Þær snúa meðal annars að stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, skattalegu umhverfi, textun og talsetningu og endurgreiðslu framleiðslukostnaðar á fréttum og fréttatengdu efni. Þá er einnig ítarleg samantekt um opinberan stuðning við fjölmiðla í helstu nágrannaríkjum auk sérálits tveggja nefndarmanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

 

Nefndin lagði ekki sérstakt mat á hvaða áhrif hver tillaga hefði á rekstur ríkissjóðs. Að mati ráðherra er nauðsynlegt að kostnaðarmat liggi fyrir áður en ákvarðanir eru teknar um til hvaða aðgerða skal grípa og útfærslur á þeim. Ljóst er hins vegar að hægt er að bregðast fljótt við tillögu um lækkun virðisaukaskatts og mun ráðherra óska eftir því að nú þegar verði athugað hvort hægt sé að samræma álagningu virðisaukaskatts á fjölmiðla þannig að hann verði í öllum tilvikum í neðra þrepi.

Hér má sjá helstu tillögurnar:

 

Tillaga B: Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði:

Meirihluti nefndarinnar leggur til að Ríkisútvarpið fari hið fyrsta af
auglýsingamarkaði. Þar með verði horfið frá samkeppnisrekstri ríkisins í
auglýsingasölu, bæði í sjónvarpi og útvarpi.

„Einkareknir fjölmiðlar hér á landi búa við skakka samkeppnisstöðu vegna þess að þeir
keppa við Ríkisútvarpið, sem nýtur umtalsverðra ríkisframlaga, um sölu auglýsinga á
markaði.
Fjölmiðlar telja Ríkisútvarpið of sterkan keppinaut á auglýsingamarkaði og taki of mikið til
sín, sérstaklega í sjónvarpi. Þá hefur Samkeppniseftirlitið einnig gagnrýnt veru
Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Tekjur Ríkisútvarpsins af auglýsingum og kostunum
voru um 2,2 milljarðar króna á árinu 2016 og er áætlað að það hafi verið um 20% af
birtingarfé auglýsinga á innlendum markaði og um 44% af birtingarfé auglýsinga í útvarpi
og sjónvarpi. Fari Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði getur það haft veruleg áhrif á
rekstrarumhverfi frjálsra fjölmiðla.
Samkvæmt ársreikningi Ríkisútvarpsins voru hreinar tekjur af samkeppnisrekstri um 1,8
milljarður króna árið 2016. Stjórnvöld þurfa að meta hvort bæta eigi upp það tekjutap
félagsins að hluta eða öllu leyti, en ef það er gert lægi beinast við að fjármagna það með
hækkun afnotagjalda.
Nýlegar skýrslur frá Norðurlöndunum sýna að auglýsendur hafa varið umtalsverðu
fjármagni í auglýsingar hjá alþjóðlegum risum á borð við Google og Facebook (líkt og fjallað
er um í kafla 6.2.4). Auglýsingarmarkaðurinn er í stöðugri þróun og kaupendur auglýsinga
leita sífellt nýrra leiða til að koma skilaboðum sínum á framfæri, hvort sem er í sjónvarpi,
útvarpi, á prentmiðlum, vefmiðlum, samfélagsmiðlum eða með öðrum hætti. Jafnframt er
sala alþjóðlegra netmiðla á auglýsingum að aukast. Það er því ekki sjálfgefið að það
auglýsingafé sem nú fer til Ríkisútvarpsins skili sér allt til einkarekinna innlendra fjölmiðla,
en samkeppnisstaða þeirra mun væntanlega batna.“

 

Tillaga D: Áfengis- og tóbaksauglýsingar verði heimilaðar:

Meirihluti nefndarinnar leggur til að birtingar á áfengis- og
tóbaksauglýsingum verði heimilaðar, innan þess ramma sem alþjóðlegar
skuldbindingar Íslands segja til um.

„Á Íslandi er bannað að auglýsa í fjölmiðlum áfengi og tóbak nema að uppfylltum tilteknum
skilyrðum. Bent hefur verið á að bannið þjóni vart tilgangi sínum lengur þar sem slíkar
auglýsingar berist Íslendingum í erlendum miðlum, hvort sem er í gegnum erlenda hljóð-
og myndmiðla, erlenda vefi og samfélagsmiðla eða erlend blöð og tímarit.
Áfengi og tóbak eru löglegar neysluvörur hér á landi, þótt um þær gildi sérstakar reglur t.d.
hvað varðar framsetningu og aðgengi. Auglýsingar af þessu tagi eru einnig áberandi hluti
auglýsingamarkaðar á heimsvísu og þótt ekkert sé tryggt í þeim efnum, þá má reikna með
að íslenskir fjölmiðlar geti aflað talsverðra tekna með slíkri auglýsingasölu. Auknar tekjur
myndu þannig bæta fjárhagslega stöðu einkarekinna fjölmiðla.
Takmarkanir sem settar eru á sölu slíkra auglýsinga þurfa að taka mið af breyttu
neyslumynstri almennings og sístækkandi hlutdeild erlendra miðla á íslenskum markaði. Er
það mat meirihluta nefndarinnar að íslenskir fjölmiðlar eigi að lúta sambærilegum reglum
og þeir erlendu. Um er að ræða mikla tekjumöguleika og þar með mikla hagsmuni fyrir
íslenska fjölmiðla. Ísland hefur nú þegar gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar sem taka
mið af lýðheilsusjónarmiðum. Meirihluti nefndarinnar telur að heimild fyrir fyrrnefndum
auglýsingum þurfi að taka mið af þeim skuldbindingum við útfærslu tillögunnar.“

 

 

Tillaga C: Virðisaukaskattur áskrifta verði 11% :

Nefndin leggur til að sala og áskriftir dagblaða, tímarita og landsmála- og
héraðsfréttablaða, hvort sem eru á prentuðu eða rafrænu formi, skattleggist
í sama skattþrepi og falli í lægra skatthlutfall virðisaukaskatts, 11%. Meiri
hluti nefndarinnar telur jafnframt að áskriftir hljóð- og myndmiðla, bæði í
línulegri dagskrá og hljóð- og myndefni eftir pöntun skuli falla undir lægra
skattþrep virðisaukaskatts, þ.e. 11% skatthlutfall.

„Við sölu áskrifta innheimta fjölmiðlar nú 24% virðisaukaskatt í almennu þrepi af sölu
dagblaða, tímarita og landsmála- og héraðsfréttablaða á rafrænu formi, á meðan sala sömu
miðla á pappírsformi fellur undir 11% virðisaukaskatt. Um sambærilega þjónustu er gjarnan
að ræða, hvort sem efninu er miðlað á prenti eða með rafrænum hætti.
Nefndin bendir á að virðisaukaskattur er neysluskattur og af því leiðir að hið beina
skattalega hagræði af lækkuninni ætti að skila sér til viðskiptavina fjölmiðlanna, hvort sem
um er að ræða áskrifendur fjölmiðla eða þá sem kaupa aðgang að einstaka viðburðum,
sýningum og blöðum. Lækkunin getur því aukið eftirspurnina sem þá skilar sér til
fjölmiðlafyrirtækjanna og styrkir þannig rekstur þeirra.
Sérstaklega var skoðað hvort færa ætti áskriftargjöld af sölu fréttamiðla í 0% skattþrep,
þannig að enginn skattur leggist á áskriftargjöld en heimilt væri að óska eftir innskatti vegna
aðfanga úr ríkissjóði. Í ljósi eðlis þeirra atvinnugreina sem falla undir núllskatt í gildandi
lögum þótti þessi kostur ekki vænlegur. Þegar litið er til eðlis þeirra atvinnugreina sem nú
eru felldar undir núllskatt í lögum um virðisaukaskatt, má sjá að þær lúta nær allar að
útflutningi eða milliríkjaviðskiptum. Þar sem neysla og nýting umræddra vara og þjónustu
fer fram erlendis bera slíkar vörur og þjónusta ekki virðisaukaskatt hér á landi.
Nefndin telur einnig rétt að benda á að mun algengara er að íslenskir fjölmiðlar bjóði efni
sitt frítt í formi fríblaða eða á fréttavefjum sínum á netinu en erlendis. Hefur skapast hefð
fyrir því hér á landi að fá aðgang að fréttum án þess að greitt sé sérstaklega fyrir það.
Nefndin telur því að 0% virðisaukaskattur á áskrift að fréttamiðlum hafi ekki sömu áhrif hér
á landi eins og í Noregi þar sem sú leið hefur verið farin.
Einnig var skoðaður sá möguleiki að áskriftir fjölmiðla yrðu undanþegnar virðisaukaskatti
og þá án innskattsréttar, (undanþegin þjónusta), líkt og til dæmis sala miða í leikhús og á
söfn. Sú leið yrði ekki eins kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð eins og að undanþiggja þá frá
skattskyldri veltu með 0% skatti þar sem að innskattsréttur er þá ekki fyrir hendi. Nefndin
telur þó að ávinningur fjölmiðla af að undanþiggja þá frá greiðslu virðisaukaskatts yrði
væntanlega takmarkaður fyrir þá enda gætu fjölmiðlafyrirtæki þá ekki nýtt sér innskatt
vegna aðfanga.“

Tillaga A: Endurgreiðsla á hluta kostnaðar af framleiðslu á fréttum og
fréttatengdu efni

Nefndin leggur til að heimilt verði að endurgreiða úr ríkissjóði hlutfall af
framleiðslukostnaði einkarekinna fjölmiðla sem til fellur við framleiðslu á
fréttum og fréttatengdu efni á Íslandi. Lagt er til að miða skuli hlutfallið við
allt að 25% í samræmi við tímabundnar endurgreiðslur vegna
kvikmyndagerðar og hljóðritunar á tónlist, þó að ákveðnu hámarki.

„Frjálsir fjölmiðlar sinna bæði lýðræðislegu og menningarlegu hlutverki í íslensku samfélagi.
Mikilvægt er að þeir geti framleitt og miðlað fréttum og fréttatengdu efni til almennings. Með
endurgreiðslum á hluta framleiðslu á fréttatengdu efni er komið til móts við þau mikilvægu
sjónarmið að bæta þurfi rekstrargrundvöll einkarekinna fjölmiðla sem sinna lýðræðislegu
hlutverki með öflun og miðlun upplýsinga til almennings.
Nefndin leggur til að fjölmiðlar þurfi að uppfylla tiltekin skilyrði til að njóta endurgreiðslu, en
mikilvægt er að það ferli verði ekki flókið eða kostnaðarsamt. Meðal slíkra skilyrða getur
verið staðfesting Fjölmiðlanefndar á að fjölmiðillinn falli undir gildissvið fjölmiðlalaga og
miðli fréttum og fréttatengdu efni, svo og staðfesting þriðja aðila (t.d. endurskoðanda) á
þeim rekstrarkostnaði sem lagður er til grundvallar endurgreiðslunni. Við framkvæmdina
væri hægt að taka mið af gildandi lögum um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og
hljóðritunar á tónlist. Einnig telur nefndin rétt að höfð sé hliðsjón af ákvörðun Eftirlitstofnunar
EFTA frá 15. júní 20163 um skilyrði til framleiðslustyrkja fyrir fréttir og fréttatengt efni. Þá er
það mat nefndarinnar að eðlilegt sé að settar verði reglur um hámark endurgreiðslna til
fjölmiðla, t.a.m. með hliðsjón af reglum um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar og
hljóðritunar á tónlist.“

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að setja strax af stað frekari stefnumótun innan ráðuneytisins um stöðu fjölmiðlunar hér á landi. Þar verða  áhrifin metin af fyrirhuguðum aðgerðum. Leitað verður eftir samvinnu og samstarfi við  hagsmunaaðila, stjórnmálaflokka og almenning. Markmiðið er að ná breiðri sátt um starfsemi fjölmiðla og hugsanlega aðkomu ríkisins að lýðræðis- og menningarhlutverki þeirra.

Fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, skipaði nefndina í árslok 2016. Í erindisbréfi segir m.a. að henni sé ætlað að gera tillögur um breytingar á lögum og aðrar nauðsynlegar aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi og tryggja að hér á landi fái þrifist fjölbreyttur markaður frjálsra fjölmiðla, með tilliti til mikilvægs hlutverks þeirra fyrir lýðræðisþróun og samfélagsumræðu.

Nefndin var þannig skipuð:

·        Björgvin Guðmundsson, formaður, meðeigandi KOM ráðgjafar, skipaður án tilnefningar 
·        Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, skipuð án tilnefningar
·        Hlynur Ingason, starfsmaður í fjármála- og efnahagsráðuneyti, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðherra 
·        Soffía Haraldsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri mbl.is, skipuð án tilnefningar
·        Svanbjörn Thoroddsen, meðeigandi KPMG, skipaður án tilnefningar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Evrópumálin: Gangi Noregur inn í ESB verður Ísland líka að ganga inn – hinn kosturinn er efnahagsleg hnignun

Evrópumálin: Gangi Noregur inn í ESB verður Ísland líka að ganga inn – hinn kosturinn er efnahagsleg hnignun
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt