Já, eitt ár er nú liðið frá því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, birti mynd á Facebook-síðu sinni, af hráu nautahakki á kexbeði, undir yfirskriftinni:
„Einn af mörgum kostum við íslenskt kjöt er að maður þarf ekki að elda það frekar en maður vill.“
Færsla Sigmundar vakti mikla athygli, en aðallega furðu, enda ekki alvanalegt að íslendingar borði hrátt nautahakk ofan á kexi og eru þá Framsóknarmenn meðtaldir.
Kjötummæli Sigmundar nokkrum árum áður, frá 2014, um að varast bæri lítið eldað erlent kjöt, þar sem það gæti borið með sér sníkjudýrið Toxoplasma sem breytti hegðunarmynstri fólks, vakti álíka mikla athygli. Þau ummæli kviknuðu út frá því að Sigmundur, þá forsætisráðherra, vildi vara við endurskoðun á landbúnaðarkerfinu og sagði það glapræði að að afnema tolla meðan stóru ríkin gerðu það ekki.
„Ef menn borða til dæmis kjöt erlendis sem er ekki nógu vel eldað á fólk að hættu að innbyrða þessa sýkingu og hún getur leitt til breytingar á hegðunarmynstri. Þannig að menn hafa jafnvel velt upp þeirri spurningu og rannsakað hvort þetta kunni að breyta hegðun heilu þjóðanna.“