Á Facebook hefur verið stofnuð síða, svokölluð Like-síða, um miðnætti í gærkvöldi, þar sem svo virðist sem að Logi Bergmann Eiðsson sé að bjóða sig fram sem óháður borgarstjóri í næstu sveitastjórnarkosningum. Myndir af Loga ásamt konu sinni, Svanhildi Hólm og yfirlýsing um framboð hans eru á síðunni. Svo verður hinsvegar ekki, en Logi staðfesti við Eyjuna í morgun að um gott grín væri að ræða, sem hann vissi þó ekki hvaðan kæmi.
Logi er þekktur spéfugl og hefur sjálfur lýst því hvernig hann hefur yndi af því að hrekkja samstarfsfélaga sína með ýmsum hætti. Verður því að teljast líklegt að nú hafi einhver hugsað sér gott til glóðarinnar og hefnt sín með þessum hrekk, sem verður að teljast nokkuð góður.
Í yfirlýsingunni á Facebook-síðunni segir:
„Halló Reykjavík
Nú er kominn tíminn til að ég tali við ykkur öll. Öll í heild sinni. Þið gætuð spurt ykkur, af hverju? Hvers vegna vil ég tala við ykkur? Svarið er einfalt, ég vil vinna fyrir ykkur. Þið eruð frumkvöðlar, foreldrar, börn og eldri borgarar. Reykjavík þarf nýjan borgarstjóra. Hlutlausan leiðtoga. Síðan ég lét af störfum á Stöð 2 hef ég velt mér upp úr því hvort ég yrði ekki góður borgarstjóri. Ég komst að svari í samtali við barnið mitt. “Pabbi, hvernig ætlar þú núna að láta gott af þér leiða?” Ég vissi ekki hverju ég átti að svara. Þess vegna vil ég bjóða mig fram til borgarstjóra.
Kaflaskil
Síðan það fékkst lögbann á störf mín hjá Stöð 2 fór ég að verja miklum tíma á Facebook-hópnum “Gamlar ljósmyndir”. Því fylgir mikið frelsi að leiða hugann til gömlu tímanna. Tímanna þegar maður var frjáls frá tækjum og tólum. Þegar kaffihús Reykjavíkurborgar snerust um samtöl en ekki snjallsíma. Þessu vil ég breyta. Ó borg, mín borg. Líkt og Haukur Morthens söng. Reykvíkingar eru sterkir. Þó geta þeir ekki allir unnið. Málefni öryrkja og aldraðra eru mér hátt í huga. Mannsæmandi líf fólks eru sjálfsögð mannréttindi, bæði mín og þín.
Reykvíkingar eru ekki hræddir við breytingar. Breytum borginni að innan jafnt sem og að utan. Fallegri leikvellir, fleiri íþróttafélög og sterkari kennara. Ég hef sjálfur brennt mig á skólakerfi Reykjavíkurborgar, nánar tiltekið árið 1974. Hæddur og spottaður af eldri drengjum, og jafnöldrum. Þetta fékk mig til að hugsa. Hvað getum við gert betur? Til dæmis með eineltislöggunni og líkamsrækt. Ég hef stórar áætlanir fyrir skólakerfi barnanna okkar. Ræktum börnin okkar, ræktum siðferði Reykvíkinga. Sköpum leikskóla og stækkum störf. Þetta er krafturinn sem knýr mig áfram, en er ykkar að beysla. Sjálfstætt starfandi borgarstjóri er það sem Reykjavík þarf. Ekkert hægri. Ekkert vinstri.
Loforð
Næstkomandi laugardag, 27. janúar, mun vera opið hús hjá mér í Vesturbænum, hjarta Reykjavíkurborgar. Þeir sem ekki eiga brauð að brenna, heimilislausir og öryrkjar, eru sérstaklega velkomnir í spjall til mín um mín stefnumál og þeirra vandamál. Þar að auki mun ég gefa út á næstu dögum ítarlega stefnuskrá. Einnig munum ég og konan mín opna fjölmargar borgarstjórakosningaskrifstofur víðsvegar um Reykjavík og höfuðborgarsvæðið þar sem þið eruð öll velkomin í kaffi, allan sólarhringinn.“
Þegar þetta er skrifað hafa 70 manns líkað við síðuna, meðan aðrir eru efins í athugasemdakerfinu, en aðspurður hvort hann hefði hugleitt frama í pólitík, svaraði Logi, „Nei. Aldrei.“