Norðurlönd í fókus standa fyrir umræðukvöldi í sal Norræna hússins þriðjudagskvöldið 23. janúar kl. 19:30-21:00 með dönsku baráttukonunum og femínistunum Geeti Amiri og Natasha Al-Hariri. Viðburðurinn fer fram á ensku og er aðgangur ókeypis.
Geeti Amiri og Natasha Al-Hariri hafa vakið mikla athygli að undanförnu í Danmörku með baráttu sinni fyrir auknum kvenréttindum meðal fólks af innflytjenda og breyttri sýn á konur af erlendum uppruna sem gerendur í eigin lífi.
„Það hefur verið mikil umræða um þessi mál í Danmörku. Þær eru að ræða um kúltúrinn í þessum löndum, og hvernig það getur verið tvöföld byrði að vera bæði innflytjandi eða af innflytjendaættum og kona frá Mið-Austurlöndum. Þetta er ekki málefni sem við þekkjum vel af eigin raun hér á Íslandi og vonandi varpar þetta frekara ljósi á blæbrigðin í þessum málum, því umræðan verður oft svarthvít,“
segir Sigurður Ólafsson verkefnastjóri hjá Norræna húsinu, en hann verður fundastjóri á morgun.
„Þær Geeti Amiri og Natasha Al-Hariri munu opna fundinn, hvor með sína tölu, en þær eru alls ekki sammála um allt í þessum málum. Síðan mun ég spyrja þær nokkurra spurninga og í lokin verður opnað á spurningar úr sal.“
Í tilkynningu um viðburðinn segir:
„Þó að umræða um málefni innflytjenda, sérstaklega þeirra sem koma frá Mið-Austurlöndum, geti vakið upp heitar tilfinningar meðal Íslendinga er staðreyndin sú að við þekkjum málin tiltölulega lítið af eigin raun og leitum þess vegna oft dæma annars staðar frá, t.d. á Norðurlöndum. Við þetta hefur umræðan tilhneigingu til að einfaldast og það gleymist hversu margbrotinn veruleikinn er meðal innflytjenda á Norðurlöndum.
Á síðari árum hefur fólk af innflytjendaættum á Norðurlöndum í síauknum mæli sjálft tekið til máls í opinberri umræðu í stað þess að eilíflega sé talað fyrir hönd hópsins og þá opinberast vel hversu skoðanir þeirra eru fjölbreyttar og veruleiki þeirra ólíkur. Dæmi um slíkt eru nokkrar ungar konur af múslímskum ættum í Danmörku sem að undanförnu hafa komið fram opinberlega og rætt stöðu sína, bæði í dönsku samfélagi og í samfélagi innflytjenda í landinu. Þær eru ósammála innbyrðis um ýmislegt en þó sammála um að „nýdanskur femínismi“ sé almennt séð barátta fyrir því að hver kona eigi að njóta frelsis til þess að lifa lífinu eftir eigin vilja.“