Bæjarstjórn Hafnarfjarðar fjallaði um umferðaröryggi bæjarbúa og tvöföldun Reykjanesbrautarinnar á fundi sínum í síðustu viku. Mikil óánægja er með að ekki sé búið að tryggja fjármagn í fjárlögum til frekari framkæmda við Reykjanesbrautina, innan Hafnarfjarðar. Líkt og þeir sem þar fara um vita, að mikill flöskuháls getur myndast á umferðinni þegar komið er inn í bæinn, ekki síst vegna aukinnar umferðar til og frá Leifsstöð.
Bókaði bæjarstjórnin á fundinum, að fjármagn til að klára tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldársvegi að Krýsuvíkurveginum yrði tryggt árið 2018 og 2019, þar sem hönnunin lægi þegar fyrir.
Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs, segir í viðtali við Morgunblaðið að ástandið sé alvarlegt vegna fjölda slysa:
„Samráðshópur Hafnarfjarðarbæjar og Vegagerðarinnar telur þennan vegarkafla forgangsmál og er sammála um að það sé mjög brýnt að tvöfalda Reykjanesbrautina þar sem alvarlegustu slysin hafa orðið. Það fara 40 til 50 þúsund bílar um veginn á dag sem er langt yfir spám um umferðarþunga. Næsta skref er að bæta gatnamót og hringtorg á milli Lækjargötu og Kaplakrika. Það segir sig sjálft að þess þarf þegar meirihluti umferðar bílaleigubíla sem ferðamenn leigja og taka á Keflavíkurflugvelli fer þar um. Við erum að tala um þjóðveg með síaukinni umferð.“
Rósa segir að þrýsta þurfi á um þessi mál á þingi:
„Þegar þing kemur saman á ný munum við óska eftir fundi með fjárlaganefnd til þess að þrýsta á þessi mál,“ segir Rósa og bendir á að þingmenn höfuðborgarsvæðisins verði að sýna ákveðni í baráttunni um fjármagnið. Það verða allir að leggja sitt af mörkum, kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna og þingmenn þessa svæðisins.“
Eftirfarandi bókun var samþykkt einróma á fundinum:
„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar lýsir yfir vonbrigðum með að ekki sé tryggt fjármagn á árinu 2018 við áframhaldandi framkvæmdir við Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar. Jafnframt er skorað á þingmenn að sjá til þess að framkvæmdum verði forgangsraðað í samræmi við öryggissjónarmið samgönguáætlunar og því beri að ljúka framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar innan Hafnarfjarðar. Unnið verði skv. tillögu um skiptingu framkvæmda við Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar sem samráðshópur Vegagerðarinnar og Hafnarfjarðarbæjar hefur lagt fram. Sem fyrsta áfanga verði tryggt fjármagn á árunum 2018 og 2019 til að ljúka framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi að mislægum gatnamótum við Krýsuvíkurveg. Hönnun á þessum vegakafla liggur fyrir. Síðan verði tryggt fjármagn í samgönguáætlun á árunum þar á eftir til að ljúka framkvæmdum við Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar skv. framangreindri tillögu.“
Þá ritaði bæjarstjóri bréf til þingmanna Suðvesturkjördæmis, fjárlaganefnd og Samgönguráðherra þann 20. desember sl. um sama mál. Þar minnti hann á að á íbúafundi um samgöngumál í Hafnarfirði í haust var skorað á stjórnvöld að tryggja áframhaldandi úrbætur á Reykjanesbraut í Hafnarfirði. Tryggt yrði að framkvæmdir við gatnamótin og hringtorgin á kafla frá Kaplakrika að Lækjargötu hæfust á þessu ári og að jafnframt verði lokið við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldársselsvegi að mislægum gatnamótum á Krísuvíkurvegi.