Hannes Hólmsteinn Gissurason, stjórnmálaprófessor við Háskóla Íslands, býður fram áhugaverða lausn á þeim mikla umferðavanda sem jafnan skapast á Miklubrautinni á degi hverjum.
Á Facebooksíðu hans segir:
„Ég bý í 101 eins og borgarfullrúar vinstri meirihlutans og geng í vinnuna. En ég skil ekki, hvers vegna aðrir borgarbúar láta bjóða sér umferðaröngþveitið við Lönguhlíð og Miklubraut á hverjum degi. Lausnin er einföld: Eitt stigahús tekið af fjölbýlishúsinu, sem skagar út í Miklubraut; litlu, lágu húsin hinum megin götunnar keypt og rifin; bætt við nokkrum akbrautum; engar eyjar á miðjunni, heldur færanlegur veggur, sem fluttur er til eftir umferðarálaginu (t. d. fjórar greinar í aðra áttina og tvær í hina á morgnana og öfugt síðdegis). Þeir milljarðar, sem í þetta fara, endurheimtast á stuttum tíma í tímasparnaði.“
Hingað til hafa hugmyndir um Borgarlínu og að setja Miklubraut í stokk helst verið í umræðunni sem lausn á umferðavandanum, sem mun aðeins aukast samkvæmt fólksfjöldaspám næstu áratuga. Fjölmargir hafa sagt nauðsynlegt að fjarlægja þurfi amk hluta af fjölbýlishúsinu á horni Lönguhlíðar og Miklubrautar, þ.á.m. Ómar Ragnarsson, en húsið ku vera hannað með þeim hætti að auðvelt sé að fjarlægja einmitt þann hluta hússins sem liggur að Miklubrautinni, án þess að raska skipulagi hússins að öðru leyti.
Kostnaðurinn við hugmynd Hannesar liggur ekki fyrir, sem hann segir aðeins að hlaupi á milljörðum. En miðað við að fasteignaverð er í hæstu hæðum og að eflaust þyrfti að gera íbúum húsa við Miklubraut tilboð vel yfir markaðsvirði, gæti kostnaðurinn orðið nokkuð hár. Hvort hann nái þeim 70 milljörðum sem búist er við að borgarlínan kosti, er hinsvegar annað mál.