Ríkisstjórnin hefur skipað starfshóp um kjararáð, í samráði við „heildarsamtök á vinnumarkaði“, líkt og segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
„Hópurinn skal bera saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum og leggja fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana kjararáðs, sé annað fyrirkomulag talið líklegra til betri sáttar í þjóðfélaginu til framtíðar um ákvörðun launa þeirra sem stöðu sinnar vegna njóta ekki samningsréttar.“
Þá segir einnig að starfshópurinn skuli:
„…taka til skoðunar úrskurði kjararáðs, meta með hliðsjón af launasetningu og launabreytingum þeirra stétta sem samningsfrelsis njóta og þeirri launastefnu sem samið var um við meginþorra launafólks og eftir atvikum leggja fram tillögur um úrbætur.“
Með ákvörðun sinni virðist ríkisstjórnin ekki einungis að lýsa yfir óánægju sinni yfir ákvörðunum kjararáðs, heldur einnig vantrausti, öðruvísi er ekki hægt að túlka orð tilkynningarinnar.
Mikil óánægja hefur verið með ákvarðanir kjararáðs hjá aðilum vinnumarkaðarins, sem segja nýlegar ákvarðanir um launahækkanir biskups, forstjóra opinberra stofnana, þingmanna og ráðherra á síðasta ári, ekki í neinu samræmi við þróun á vinnumarkaði. Skoraði Viðskiptaráð á Alþingi að grípa til aðgerða og virðist ríkistjórnin hafa hlustað og endurspeglar þar með einnig háværar raddir almennings.
Starfshópurinn hefur ekki langan tíma, hann skal ljúka störfum fyrir 10.febrúar.
Ekki náðist í Jónas Þór Guðmundsson formann Kjararáðs fyrir birtingu fréttarinnar.
Lesa má tilkynninguna hér að neðan í heild sinni:
Ríkisstjórnin hefur, að höfðu samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði, ákveðið að skipa starfshóp um kjararáð. Hópurinn skal bera saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum og leggja fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana kjararáðs, sé annað fyrirkomulag talið líklegra til betri sáttar í þjóðfélaginu til framtíðar um ákvörðun launa þeirra sem stöðu sinnar vegna njóta ekki samningsréttar.
Þá skal starfshópurinn taka til skoðunar úrskurði kjararáðs, meta með hliðsjón af launasetningu og launabreytingum þeirra stétta sem samningsfrelsis njóta og þeirri launastefnu sem samið var um við meginþorra launafólks og eftir atvikum leggja fram tillögur um úrbætur.
Formaður hópsins er Jóhannes Karl Sveinsson hrl. Auk hans sitja í hópnum fyrir hönd ríkisins Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu. Fyrir hönd aðila vinnumarkaðarins sitja þau Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Helga Jónsdóttir framkvæmdastjóri BSRB og Magnús Norðdahl lögfræðingur ASÍ.
Starfshópurinn skal ljúka störfum eigi síðar en 10. febrúar nk.