Alls voru samþykktar lóðaúthlutanir fyrir 1.711 íbúðir í borgarráði á síðasta ári. Mikill meirihluti úthlutaðra lóða var fyrir byggingarfélög sem starfa án hagnaðarsjónarmiða. Borgarráð fékk kynningu á úthlutunum lóða á fundi sínum í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.
Úthlutað var lóðum fyrir 1.711 íbúðir í borgarráði í fyrra. Af þeim eru 1.422 íbúðir sem úthlutað var til félaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni en þar eru íbúðir fyrir stúdenta, eldri borgara og lágtekjufólk í meirihluta.
Eins er forvitnilegt að meirihluti lóðanna er ekki á hefðbundnum þéttingarreitum í Miðborginni en uppbygging á þeim öllum mun hins vegar þétta byggð.
„Þetta er algjört metár í lóðaúthlutunum,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
„Til að átta sig á stærðargráðunni þá hittist raunar svo skemmtilega á að 1.711 íbúðir er nákvæmlega heildarfjöldi íbúða á öllu Seltjarnarnesi eins og fjöldi þeirra var í árslok 2016. Það er líka mjög mikilvægt að hafist verði handa við þær 1.422 íbúðir sem byggjast munu á lóðum sem úthlutað var til félaga sem ekki starfa í hagnaðarskyni. Verkefni á vegum þeirra hafa verið áberandi hluti af húsnæðisáætlun borgarinnar enda leika þau lykilhlutverk við að útvega húsnæði á viðráðanlegu verði. Lóðaúthlutanir til þeirra munu því sannarlega halda áfram á þessu ári, en nokkur vilyrði um það liggja þegar fyrir,“
segir Dagur.
Stærstu úthlutanirnar árið 2017 voru til Félagsstofnunar Stúdenta sem er þegar byrjað að byggja 244 íbúðir við Sæmundargötu í Vatnsmýri, Háskólans í Reykjavík sem mun byggja 370 íbúðir við Nauthólsveg, Bjargs íbúðafélags í eigu verkalýðshreyfingarinnar sem mun byggja 156 íbúðir við Móaveg í Grafarvogi og um 80 íbúðir á tveimur lóðum í Úlfarsárdal, Sjómannadagsráðs sem mun byggja 144 íbúðir við Sléttuveg í Fossvogi og til félagsins Vesturbugtar sem byggir 176 íbúðir við Vesturbugt við gömlu höfnina. Þá er Búseti að hefja byggingu á 78 íbúðum á lóðinni við Keilugranda 1 þar sem SÍF skemman stóð.